„Ég held að það sé margt fólk sem væri til í að taka þátt en auðvitað hefur enginn áhuga á því að sitja undir svívirðingum. Ég held að það þurfi að draga marga, konur og karla, á eyrunum út í framboð,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.
Í viðtalinu ræðir Ásthildur meðal annars um síðustu fjögur árin fyrir vestan, landsbyggðarmálin og umhverfi stjórnmála í dag en Ásthildur telur að íslensk pólitík sé að missa af góðu fólki vegna umræðu sem sé á lágu plani á vettvangi stjórnmála. Sjálf segist hún heppin að starfa á sveitastjórnarstiginu þar sem andinn sé annar en í til dæmis landsmálunum.
„Ég held að stjórnmálamenn í öllum flokkum séu að gera sitt besta og vilji bæta samfélagið, en umræðan einkennist af því að þetta sé hið versta fólk. Gagnrýni á auðvitað alltaf rétt á sér en svívirðingar eiga það ekki. Ég hef fylgst lengi með umræðunni, auðvitað með því að vera dóttir föður míns, ég fór með honum í ferðir, sem bílstjóri eða bara fylgifiskur og fór oft í heimsóknir niður á þing. Mér fannst alltaf óskaplega gaman að koma niður í þinghús og hitta þar fólk úr öllum flokkum og það var mikil hlýja á milli þingmanna, óháð því hvar þeir stóðu í pólitík. Ég kem oft niður á þing í dag og þetta er breytt,“ segir Ásthildur en Sturla Böðvarsson, fyrrum ráðherra og þingmaður, er faðir hennar. Þau feðgin eru eins og frægt er orðið bæði bæjarstjórar í dag, Sturla í Stykkishólmi.
Ásthildur segist í viðtalinu stundum hafa á tilfinningunni að samfélagið sé ekki búið að sættast á það að konur eru virkir þátttakendur í stjórnmálum, kannski sé samfélagið ekki búið að ná lengra í jafnréttisbaráttunni. Hún segir að konur eigi að láta slag standa ef þær hafi snefil af áhuga á þátttöku í pólitík. Rétti tíminn til þátttöku sé núna. „Það er til dæmis mikil eftirspurn eftir ungum konum í pólitík en það þarf að finna þær og þeim er oftast vel tekið.“
Til að takast á við stjórnmálin þurfi svo kjark, vera tilbúinn að gefa sig í verkefnið og reyna að brynja sig fyrir óvæginni gagnrýni. „Ég held að konur eigi að láta slag standa ef þær hafa snefil af áhuga á þátttöku í pólitík, við höfum jú flestar skoðanir á öllu og rétti tíminn til þátttöku er núna. Við eigum glæsilegar stjórnmálakonur eins og til dæmis Ólöfu Nordal sem hefur sem betur fer snúið til baka í stjórnmálin, við þurfum fleiri konur eins og hana. Á sveitarstjórnarstiginu eru sömuleiðis fullt af frambærilegum konum sem yrðu frábærir alþingismenn.“