Fékk sigurfregnirnar á heimaslóðum

Bjartmar Guðlaugsson
Bjartmar Guðlaugsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er auðmjúkur og þakklátur þjóðinni minni og stoltur af því að henni þyki jafnvænt um lagið mitt og mér þykir um hana,“ segir Bjartmar Guðlaugsson en lag hans, Þannig týnist tíminn, var í gær kjörið óskalag þjóðarinnar í samnefndum þætti á Rúv. 

Bjartmar var staddur í Alþýðuhúsinu í Vestmannaeyjum þegar hann fékk fregnirnar af sigrinum. „Ég var staddur í herberginu þar sem við æfðum þegar við vorum yngri og sennilega þar sem við byrjuðum að fikta við að búa til okkar eigin lög. Þetta gat eiginlega ekki orðið fallegra. Ég spila alltaf í húsinu einu sinni á ári, í desember, af virðingu við húsið. Ég hef haldið tryggð við það,“ segir Bjartmar, en hann fluttist ungur til Vestmannaeyja þar sem hann bjó þar til hann varð tvítugur. 

„Þegar við vorum að stofna fyrstu unglingahljómsveitina okkar fengum við að vera í Alþýðuhúsinu. Þar voru unglingaböll, þangað komu líka Trúbrot og Hljómar og allar þessar stóru hljómsveitir þess tíma.“

„Eins og þetta lag hafi komið til mín“

Aðspurður hvort hann muni eftir tímanum þegar hann samdi sigurlagið svarar hann játandi. „Þetta kom bara einhvern veginn. Ég var lengi að melta þetta fyrst, en svo bara kom þetta átakalaust. Eins og mér hafi verið trúað fyrir að koma þessu til skila. Það gerist oft með ballöðurnar mínar,“ segir Bjartmar um tónverkið, en annað gildi hins vegar um textana.

„Ég var mjög lengi með textann hins vegar, ég var búinn að búa til langan texta og svo valdi ég bara úr það besta. Ég er alltaf mjög lengi að búa til texta, nema texta eins og í laginu Sumarliði er fullur. Slíkir textar koma ansi fljótt. En ef það á að vera einhver fílósófísk meining, þá þarf ég að liggja yfir þessu alveg helling.“

Bjóst ekki við vinsældunum

Bjartmar bjóst ekki við þeim móttökum sem lagið fékk, né þeim heiðri sem lagið hefur nú verið sæmt. „Þegar lögin mín verða vinsæl, þá eru það aldrei lög sem ég hefði hugsað sjálfur að yrðu vinsæl. Til dæmis á það við um lagið Sumarliði er fullur, það átti ekki að vera með á plötunni en Rúnar Júlíusson henti því með. Það sama gildir um plötuna Í fylgd með fullorðnum. Þá var það bara Steinar Berg sem valdi hana úr 30 lögum, þannig að ég hef voða litla innsýn í hvað verður vinsælt og geri aldrei neitt til þess að stuðla að vinsældum eins ákveðins lags,“ segir Bjartmar. 

Hrifinn af flutningi söngvaranna

Bjartmar segist njóta þess þegar aðrir tónlistamenn túlka lögin hans. „Það má ekki misnota lögin mín og nota þau í auglýsingar en ég verð rosalega stoltur ef aðrir söngvarar vilja syngja þau, eins og lagið Þannig týnist tíminn. Það var í flottum flutningi Lay Low og Ragga Bjarna og svo kom Páll Rósinkranz og setti það í aðra vídd, en fyrir höfund er það einmitt þetta sem skiptir máli; hvernig aðrir fara með lögin manns. Það er alltaf gaman að láta heimsklassasöngvara syngja efnið manns,“ segir Bjartmar og bætir við: 

„Áður fyrr var ég bara að semja fyrir aðra söngvara, Björgvin Gíslason, Þorgeir Ástvaldsson og lög fyrir jólaplötur og svona ýmislegt. Þá varð ég þess aðnjótandi að undrabarn söng lag eftir mig. Það var hún Björk sem söng Afa og það var mín fyrsta upplifun af slíkum heimsklassasöngvara. Ég fæ alltaf þessa góðu tilfinningu þegar aðrir syngja lögin mín en fæ hana ekki jafnmikið þegar ég syng þau sjálfur.“

„Við erum ljóða- og tónlistarþjóð“

Lag Bjartmars var í flottum hópi í þáttunum á Rúv. Segir hann það mikinn heiður að eiga lag í slíkri keppni. 

„Öll lögin sem voru í úrslitaþættinum eru flott, ásamt þeim sem komust ekki í úrslit. Ég er svo stoltur að tilheyra þessum frábæra hópi höfunda, af báðum kynjum, í öll þessi ár, og ég hvet ungt fólk til þess að segja hug sinn í ljóði og lagi. Eyða bara tímanum í það.“

„Það eru svo margir góðir texta- og lagahöfundar á Íslandi og við erum bara tónlistar- og ljóðaþjóð. Svo harma ég að verið sé að höggva að þeim sem rækta tónlistina í unga fólkinu, svo sem tónlistarkennurum. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hvað það er stór liður í menntun barna að þau fái tónmenntun. Ég hef hins vegar aldrei lært tónlist, þannig, ég pikkaði þetta bara upp sjálfur.“

Sjálfur hefur Bjartmar ávallt lagt áherslu á að geta tjáð sig í orði og hljóði. 

„Það er stundum eins og manni sé trúað fyrir þessu, hugsunin er þannig. Við vitum ekki hvaðan tónlistin kemur og því borgar sig að bera virðingu fyrir henni.“

Orðin sem við tölum eru heyranleg tákn hugsana vorra og orðin sem við skrifum eru sýnileg tákn hugsana vorra. Þetta eru upphafsorðin í næstum 100 ára gamalli málfræðiorðabók sem ég á,“ segir Bjartmar áhugasamur áður en hann bætir við: „Þar af leiðandi hljótum við að þurfa að fara svolítið varlega með orð, þótt mér hafi ekki alltaf tekist það.“

Sjá frétt mbl.is: Þannig týnist tíminn er óskalag þjóðarinnar

mbl.is/Kristján Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert