Ljósin kveikt á Austurvelli

Fjölmenni var á Austurvelli í dag.
Fjölmenni var á Austurvelli í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í dag voru ljósin kveikt á jólatrénu við Austurvöll. Að venju var Gerður G. Bjarklind kynnir en meðal þeirra sem komu fram voru Sigríður Thorlacius og Helgi Björnsson, sem sungu jólalög ásamt hljómsveit.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs, fluttu jafnframt stutt ávörp og að því loknu kveikti hin níu ára gamla Lilja Rán Gunnarsdóttir ljósin á trénu. Lilja Rán rekur ættir bæði til Noregs og Íslands.

Það hefur lengi verið hefð að jólatréð á Austurvelli sé gjöf frá Oslóarborg. Tréð sem kveikt var á í dag var þó ekki þaðan, heldur frá skóglendi við Rauðavatn í Reykjavík. Eins og mbl.is sagði frá brotnaði Oslóartréð sem búið var að setja upp í óveðrinu síðasta sunnudag. Á mánudag hélt því Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að Rauðavatni þar sem hann felldi tré á jörð Skógræktarfélags Reykjavíkur. Sagði hann þá frá því að Oslóartréð yrði sagað niður og notað í jólaþorpinu í Ráðhúsi Reykjavíkur. 

Á jólatrénu er jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra en þeir hafa jafnan prýtt jólatréð á Austurvelli. Það er einmitt Giljagaur sem er níundi jólasveinninn í jólaóróanum.

Bubbi Morthens og Linda Björg Árnadóttir leggja félaginu lið með túlkun sinni á Giljagaur – Bubbi hefur gert kvæði um Giljagaur og Linda Björg hannaði óróann. Samkvæmt tilkynningu frá Reykjavík fer allur ágóði af sölu óróans til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt við málefnið.

Jólasveinar skemmtu á Austurvelli í dag.
Jólasveinar skemmtu á Austurvelli í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Helgi Björnsson ásamt hljómsveit
Helgi Björnsson ásamt hljómsveit mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert