Frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa var afgreitt úr þingflokki Framsóknarflokksins á fundi hans skömmu fyrir klukkan þrjú með bókun um bæði með „tæknilegum og efnislegum fyrirvörum.“ Þetta staðfestir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is.
„Það eru miklar efasemdir náttúrulega innan þingflokksins og bókun okkar er á þá leið að hver þingmaður hafi sitt frelsi í þessu og geti þá komið með breytingatillögur, komið með nýjar tillögur eða eitthvað slíkt annað sem gæti leyst náttúrupassann af hólmi. Því að megingrunnurinn er sá að leggja aukið fé til uppbyggingar ferðamannastaða en ef ég tala fyrir mig persónulega í krafti þessarar bókunar þá er ég einfaldlega á móti þessari leið sem þarna er verið að kynna í frumvarpinu. En ég er hlynnt því að það verði farin einhvers konar gjaldtökuleið,“ segir Vigdís. Málið snúist þannig ekki um markmiðið heldur aðferðafræðina við að ná því.