Íbúar fengu misvísandi skilaboð

Íbúum brá mjög þegar sökkviliðið mætti á staðinn til að …
Íbúum brá mjög þegar sökkviliðið mætti á staðinn til að bera þá út. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íbúum í ólöglegu leiguhúsnæði við Nýbýlaveg 4 í Kópavogi brá mjög þegar slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bar að garði um kl. 18 í kvöld, í þeim tilgangi að loka húsnæðinu. Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir hafði eigandi húsnæðisins ekki lokið úrbótum. Fallið var frá lokuninni eftir að slökkvilið og eigandi komust að samkomulagi um að ræða framhaldið í fyrramálið.

Húsnæðið er í bakhúsi og tilheyrir þeirri þyrpingu sem eitt sinn hýsti Toyota. Í því eru um 10 herbergi, sem öll eru í útleigu, en að sögn Bjarna Kjartanssonar, sviðsstjóra forvarnasviðs slökkviliðsins, hafði ítrekað verið varað við lokun og frestir gefnir.

„Síðasti lokafrestur var útrunninn og þá var talið eðlilegast að loka þessu, því einhvers staðar slitna allar teygjur,“ segir hann. „Ég ræddi í kvöld bæði við eiganda og leigjanda og það virðist einhver misskilningur hafa verið á milli þeirra, sem kannski útskýrir einhverjar af þessum töfum, en við munum hitta eigandann í fyrramálið og ég treysti því að hann finni snarlega einhverja lausn til að kippa þessu í liðinn, þannig að við látum lokanir eiga sig,“ segir Bjarni.

Bjarni segir m.a. vöntun á brunaviðvörunum í húsnæðinu og hólfunum í stigahúsi, sem geri hæðina algjörlega óvarða fyrir eldi annars staðar frá í húsinu. Hann segir úrbætur langt komnar, en þær hafi þó ekki verið kláraðar.

Þá hafi einnig komið í ljós að fleiri búa í húsnæðinu en slökkvilið hafði fengið upplýsingar um. Sumir þeirra neituðu að fara, þegar slökkviliðið hugðist rýma húsnæðið.

Bjarni segist vonast til að farsæll botn fáist í málið, en í flestum tilfellum þar sem gefnar eru út viðvaranir um lokun, geri eigendur eða forráðamenn með eign í útleigu, úrbætur innan gefins tíma.

Sagt eitt og síðan annað

Adrian Staszczuk er einn þeirra sem búa í húsnæðinu. Hann gerði leigusamning fyrir desembermánuð í upphafi mánaðar og greiddi leiguna fyrirfram, en segir að í síðustu viku hafi miði verið hengdur upp þar sem fólki var tilkynnt að það þyrfti að flytja út. Þá hafi maður frá slökkviliðinu mætt á svæðið á miðvikudag eða fimmtudag og sagt að fólkið þyrfti að vera farið á föstudegi.

Að sögn Adrian fengu íbúarnir þó skömmu síðar þau skilaboð frá leigusala sínum að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur, þessu yrði kippt í liðnn. Þeim hafi því brugðið mjög þegar slökkviliðið og Rauði krossinn bönkuðu upp á í kvöld.

Fólkið var sem lamað, segir Adrian, og einhverjir hreinlega brotnuðu niður. Sjálfur var hann búinn að pakka í tösku þegar tilkynnt var að íbúarnir mættu vera áfram í herbergjum sínum. Í einhverjum þeirra búa fjölskyldur með börn, að sögn Adrian.

Adrian segist mjög óviss um framhaldið; hann hafi ekki hugmynd um hversu lengi íbúarnir fá að vera áfram.

Adrian Staszczuk var búinn að pakka ofan í tösku þegar …
Adrian Staszczuk var búinn að pakka ofan í tösku þegar tilkynnt var að íbúarnir gætu verið áfram í húsnæðinu, að minnsta kosti í bili. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert