Íslensk lög nái ekki yfir viðskiptin

Skúli Þorvaldsson.
Skúli Þorvaldsson. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Verjandi fjárfestisins Skúla Þorvaldssonar í Marple-málinu svonefnda hélt því fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að skjólstæðingur hans hefði ekki átt í neinum viðskiptum við Kaupþing á Íslandi. Það sem gerst hafi eftir að fjármunir komu til Kaupþings í Lúxemborg - ef þeir tengdust Skúla - gerðust aðeins þar.

Skúli krefst þess að hans þætti í málinu verði vísað frá dómi. Verjandi hans benti á að Skúli hafi frá árinu 2003 búið í Lúxemborg eða í hálfan áratug áður en af þeim færslum kemur sem ákært er fyrir í málinu. Það séu enda færslur sem eingöngu snúi að Lúxemborg og þrátt fyrir að lögsagan sé þannig að íslensk lögregluyfirvöld áskilji sér refsivald yfir Skúla þá þurfi að byggja á því að hann hafi framið brot gegn lögum þess lands þar sem meint brot eru sögð hafa verið framin.

Hann sagði að í ákæru væri ekki vikið að því hvaða lög í Lúxemborg Skúli eigi að hafa brotið. Sé hann hlutdeildarmaður í brotum annarra þá hafi þeir atburðir gerst í Lúxemborg og beri að upplýsa um það hvaða ákvæði laga í Lúxemborg hann hafi brotið þar. Það hafi ekki verið gert og sé því ákæran vanreifuð og beri að vísa málinu frá.

Erlend félög og skortir á tengsl við Ísland

Í ákæru sér­staks sak­sókn­ara seg­ir að málið sé - auk sakborninga - höfðað gegn eft­ir­töld­um fé­lög­um til upp­töku:

  • Marple Hold­ing S.A. SPF
  • BM Trust S.A. SPF
  • Holt Hold­ing S.A.
  • SKLux S.A.
  • Legat­um Ltd.

Öll eru fé­lög­in með lög­heim­ili í Lúx­em­borg utan við Legat­um sem er með lög­heim­ili á Möltu.

Enn hefur málið ekki verið þingfest gagnvart félaginu Marple Holding en verjandi hinna félaganna fjögurra gerði einnig þá kröfu fyrir héraðsdómi í morgun að málinu verði vísað frá. Sagði hann frjálslega farið með staðreyndir í ákæru sérstaks saksóknara þar sem ýjað sé að því að félögin hafi svo gott sem verið rassvasi Skúla. Svo hafi ekki verið og hafi þau ekki verið í einkaeigu hans.

Þá sagði hann að hafa verði í hug að íslenskir dómstólar hafi enga lögsögu yfir félögunum sem lúti lögum í Lúxemborg, fyrir utan það sem skráð er á Möltu en lög þess lands gildi um það. Hann sagði að það væri engin þörf til þess að leggja mat á það hvort íslensk lögsaga nái til félaganna. Svo sé einfaldlega ekki. Þetta séu erlend félög sem hafi engin tengsl á grundvelli lögsögureglna við Ísland og þau séu ekki sökuð um að hafa brotið af sér.

Hann sagði jafnframt að ákæran væri vanreifuð því bæði skorti í henni umfjöllun um það hvernig lögsögureglur eigi að ná til félaganna og einnig séu upptökukröfurnar vanreifaðar. Ómögulegt sé fyrir félögin að átta sig á því hvernig reglurnar eiga að ná til þeirra og gera upptæka fjármuni óháð reglum þess lands sem hefur lögsögu yfir þeim.

Ákært til að stöðva kröfu um afléttingu

Ennfremur sagði verjandi félaganna fjögurra að viljandi sé skautað framhjá staðreyndum málsins í ákærunni. Þar sé ákært fyrir þrjár greiðslur frá Kaupþingi á Íslandi til Kaupþings í Lúxemborg sem hafi í kjölfarið verið millifærðar til Marple. Eina greiðslan frá Marple til SKLux, en þaðan fóru svo fjármunir til hinna þriggja félaganna, hafi verið í janúar 2009 og stangist sú dagsetning á við þær sem ákært sé fyrir. Sagði hann að sú greiðsla hafi ekkert með þetta mál að gera og sé það staðfest í skýrslu rannsakenda þar sem segir að greiðslan hafi verið rannsökuð en í kjölfarið flutt yfir í annað mál.

Sagði hann að vinnubrögð sérstaks saksóknara bendi til þess að þeim kafla ákærunnar sem varði þessa greiðslu hafi verið hent á blað til að stöðva kröfu Skúla Þorvaldssonar um afléttingu kyrrsetningar eigna á grundvelli þess að rannsóknin hafi dregist úr hófi. Með útgáfu ákæru lauk þeim ágreiningi. Hann sagði með ólíkindum að verið sé að tengja þessa greiðslu málinu, ekki síst þegar fyrir liggur að það var skiptastjóri Kaupþings í Lúxemborg sem millifærði fjárhæðina. „Þetta varðar á engan hátt þau sakarefni sem hér eru til umfjöllunar.“

Réttarstöðu Skúla breytt árið 2011

Verjandi Skúla krafðist einnig frávísunar á grundvelli þess að ekki hafi átt að breyta réttarstöðu hans úr vitni í sakborning á árinu 2011. Rannsakendur hafi gengið út frá því frá upphafi rannsóknar árið 2009 að Skúli hafi verið eigandi Marple - sem hann segist reyndar ekki vera - og ekkert hafi breyst á árinu 2011 sem gefa átti tilefni til þess að réttarstöðu hans var breytt og hann gerður að sakborningi.

Sökum þess að hann hafi verið með stöðu vitnis framan af rannsókninni hafi vitnaskylda hvílt á honum. Hann hafi því í skýrslutökum ekki mátt hafa lögmenn með sér til skrafs og ráðagerða eða neitað því að svara spurningum. Strax sé gengið út frá því að Skúli hafi verið eigandi félagsins og geti því hafa verið hlutdeildarmaður í meintum brotum. Hann hafi því átt að vera með réttarstöðu sakbornings frá upphafi rannsóknar ef rannsakendur teldu það skipta máli. Hann hafi því ekki notið réttlátrar málsmeðferðar.

Farið hafi svo að Skúli var ákærður fyrir sömu háttsemi og gengið var út frá upphafi rannsóknar og engar nýjar upplýsingar hafi komið fram sem hafi átt að breyta réttarstöðu hans. Hann vísaði til þess að hundruð manna hafi verið með réttarstöðu sakbornings í rannsóknum sérstaks saksóknara og hafi saksóknari skýrt það þannig að það væri til að gæta hagsmuna þeirra. Í þessu máli sé því ekki að skipta.

Ný gögn fengust með húsleit í Lúxemborg

Saksóknari í málinu gerði þá kröfu að öllum kröfum verði hafnað. Benti hún á, hvað varðar réttarstöðu Skúla, að ráðist hafi verið í húsleitir í Lúxemborg á árinu 2011 og þá hafi komið fram ný gögn og upplýsingar bárust einnig frá Kaupþingi á Íslandi. Málsatvik og eðli þeirra brota sem ákært er fyrir hafi eftir það skýrst mikið og því hafi réttarstöðu Skúla verið breytt.

Nefndi saksóknari einnig að þá hafi að nýju verið tekin skýrsla af Skúla og honum gefinn kostur á að lesa yfir skýrslu sem hann gaf sem vitni til þess að hann gæti tekið afstöðu til þess sem þar kom fram og staðfest að það sem kom fram væri rétt. Var honum kynnt að ef hann staðfesti skýrsluna þyrfti ekki að spyrja sömu spurninga aftur.

Gert hafi verið hlé á skýrslutökunni í rúma klukkustund til þess að Skúli gæti farið yfir skýrsluna ásamt verjanda sínum. Að því loknu staðfesti Skúli vitnisburðinn en kom fram með nokkrar athugasemdir. Því sé ekki séð hvernig brotið hafi verið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar.

Vísaði í Papeyjarmálið

Hvað varðar frávísunarkröfu vegna lögsögunnar sagði saksóknari að álitaefni um refsilöggjöf komi fyrst til skoðunar við efnisúrlausn málsins og um það séu dómafordæmi skýr. Vísaði saksóknari til Papeyjarmálsins en í því kom fram frávísunarkrafa frá verjanda hollensks ríkisborgara sem taldi að lögsaga Íslands næði ekki yfir hann eins og atvikum málsins væri háttað. Hann hafi ekki verið búsettur á Íslandi og skútunni sem notuð var til að flytja fíkniefni ekki siglt inn í 12 mílna landhelgi Íslands.

Hæstiréttur komst þá að þeirri niðurstöðu að takast þyrfti á um það atriði við aðalmeðferð og að álitaefnið varðaði ekki frávísun málsins á fyrri stigum þess.

Þá vísaði saksóknari til Al-Thani-málsins hvað varðaði frávísun vegna vanreifunar í ákæru en Hæstiréttur taldi ákæru í því máli nægilega skýra. Sama ætti við í Marple-málinu.

Úrskurður verður kveðinn upp á næstu vikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert