Nær allir nemar á 4.-6. ári í læknisfræði í Háskóla Íslands hafa skrifað undir yfirlýsingu um að þeir muni ekki sækja um stöður á heilbrigðisstofnunum fyrr en læknadeilan verður leyst. Undirskriftalistann ætla þeir að afhenda Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í dag. Daði Helgason, talsmaður nemanna, segir þá ekki treysta sér til að starfa við núverandi aðstæður í heilbrigðiskerfinu.
„Þetta eru um 200 undirskriftir frá 4.-6. árslæknum hérna heima en líka frá íslenskum læknanemum sem eru að læra í Danmörku og Ungverjalandi. Þetta eru nánast allir sem skrifa undir hérna heima og hlutfallið úti er hátt,“ segir Daði.
Frestur til að sækja um stöður á kandídatsári rann út 24. nóvember en hann var framlengdur vegna þess að nánast enginn sótti um, að sögn Daða. Hann segist ekki vita hvernig stjórnendur Landspítalans muni bregðast við ef enn sæki enginn um stöður þar en spítalinn þurfi algerlega á starfskröftum læknanemanna að halda.
Daði segir að launin séu rót vandans og þau skipti auðvitað máli fyrir læknanema. Gæði námsins eru þó einnig ástæða þess að þeir vilja ekki vinna á heilbrigðisstofnunum á Íslandi við núverandi aðstæður.
„Léleg laun og niðurskurður síðustu ára hefur skapað ástand þar sem mannekla er mikil og álagið á þeim sem eftir eru er gífurlegt. Við slíkar aðstæður gefst ekki mikið svigrúm til að kenna og leiðbeina nemum og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í starfi. Það er af þessum ástæðum sem við treystum okkur ekki til starfa,“ segir hann.
Sú ákvörðun læknanema að sækja ekki um stöður kemur ekki síst niður á þeirra eigin námi. Þannig segir Daði að þeir sem séu á kandídatsári fresti þannig að fá lækningaleyfi á Íslandi með þessu. Allur gangur sé á því hvað fólk ætli að gera annað ef deilan leysist ekki.
„Sumir ætla að leita sér að vinnu erlendis. Aðrir ætla að vinna við eitthvað allt annað hérna heima og enn aðrir ætla að sinna rannsóknarvinnu tengdri læknisfræði. Það er allur gangur á því hvað fólk gerir. Við vonumst auðvitað til þess að deilan leysist sem fyrst og við getum mætt til starfa næsta sumar,“ segir Daði.
Undirskriftalistinn verður afhentur Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra fyrir framan fjármálaráðuneytið kl. 15:15 í dag. Hefur ráðherrann samþykkt að hitta nemana og taka á móti listanum. Þá hafa læknar og læknanemar verið hvattir til að vera viðstaddir afhendinguna.