Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér hljóðs á Alþingi í dag og fagnaði því að núverandi stjórnarandstaða kallaði eftir því að forgangsraðað væri í þágu heilbrigðiskerfisins. Það væri ákveðin stefnubreyting frá síðasta kjörtímabili.
Lagði hann áherslu á að þrátt fyrir allt væri íslenska heilbrigðiskerfið gott og vitnaði í því sambandi til nýs landlæknis Birgis Jakobssonar og tölfræði frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD). Mikilvægt væri að tala ekki niður kerfið. Allir vildu væntanlega að lausn yrði fundin á verkfalli lækna. Þingmenn þyrftu hins vegar að meta það að hversu miklu leyti væri rétt að færa þá umræðu inn á Alþingi og hvort það væri til þess fallið að finna lausn á því. Ef niðurstaðan væri sú að það væri til þess að hjálpa til að ræða einstakar kjaradeilur væri sjálfsagt að gera það en af einhverjum ástæðum hefðu stjórnmálamenn í gegnum áratugina ekki gert það.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi Guðlaug fyrir að koma í ræðustól Alþingis og kalla eftir því að kjaradeilur væru ekki ræddar á Alþingi. Vísaði hann sérstaklega til þess að Guðlaugur væri varaformaður fjárlaganefndar þingsins. „Hvað eiga menn að ræða á Alþingi Íslendinga ef ekki það efni sem heitast brennur á þjóðinni og mestum áhyggjum veldur?“ spurði Helgi. Sagði hann að slíkt ætti að sjálfsögðu að ræða sem og starfsaðstæður þeirra sem störfuðu innan heilbrigðiskerfisins.
Helgi sagði Íslendingar ekki geta keppt við Norðmenn í launum en gætu þó notað tækifærið þegar efnahagurinn væri að batna og ríkisfjármálin komin í plús að gera aðstæður í heilbrigðiskerfinu góðar. Kallaði hann eftir áætlun frá ríkisstjórninni í þeim efnum.