Vona að Bjarna gangi betur að hlusta

Rúmlega 200 manns komu saman við fjármálaráðuneytið í dag.
Rúmlega 200 manns komu saman við fjármálaráðuneytið í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Við viljum gefa þér þessa hlustunarpípu í von um að þér muni ganga betur að hlusta á kröfur lækna og hvetjum til að ganga frá samningum sem allra fyrst,“ sagði Daði Helgason, talsmaður nema á 4. – 6. ári í læknisfræði í Háskóla Íslands, þegar hann afhenti Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra undirskriftir um 200 læknanema sem ætla ekki að sækja um stöður á heilbrigðisstofnunum fyrr en kjaradeila lækna verður leyst.

Kvaðst Bjarni vera bjartsýnn um að deilan leysist. „Ég er alltaf bjartsýnn um að menn nái saman þegar menn eiga í alvöru samningaviðræðum,“ sagði hann. 

Rúmlega 200 manns söfnuðust saman við fjármálaráðuneytið rétt eftir klukkan þrjú í dag. Bjarni þakkaði þeim sem mættu fyrir skilaboðin til hans og annarra ráðherra í ríkisstjórninni.

Umsóknarfrestur til að sækja um stöðu læknis á kandídatsári rann út 24. nóvember og var hann framlengdur til 15. desember þar sem afar fáir sóttu um. 

Mjög umhugað um að viðhalda stöðugleika

„Þið megið ganga út frá því að við tökum kjarabaráttu lækna alvarlega og við tökum af heilum hug og af fullri alvöru þátt í viðræðum við lækna til þess að leysa deiluna. Við búum hins vegar í landi þar sem enginn er eyland og við höfum sameiginlega hagsmuni af því að okkur takist að vinna bug á kjaradeilum á þessu sviði eins og öðrum þannig að við sameiginlega komum sterkari út úr niðurstöðunni,“ sagði Bjarni.

„Okkur í þessari ríkisstjórn er mjög umhugað um það að viðhalda þeim stöðugleika sem nú hefur náðst í landinu með lágri verðbólgu og raunverulegum kaupmáttarvexti sem tryggir að ungt fólk eins og þið og aðrir sem eru að mennta sig á öðrum sviðum og aðrir þeim sem eru á vinnumarkaðinum geti smá saman bætt kjörin. Við höfum allt fram á þennan dag verið í viðræðum við lækna með þetta að meginmarkmiði og ég sé að þið hafi með þessu tekið mjög stóra ákvörðun sem ég vona svo sannarlega, eins og væntanlega þið öll, að aldrei muni reyna á vegna þess að við viljum eins og læknar leysa deiluna.“

Ómögulegt verði að semja á öðrum sviðum

Bjarni sagði einnig í samtali við fjölmiðlafólk að vitað væri að samningar væru lausir á hinum almenna vinnumarkaði eftir áramót. „Við þurfum að passa okkur á því að, læknar og íslenska ríkið, að það verði ekki þannig búið um niðurstöðu þessa viðræðna að það verði ómögulegt að semja á öðrum sviðum þar sem samningar eru lausir,“ sagði hann. 

„Það horfir til annars í þessu og jafnvel þó að við getum öll verið sammála um mikilvægi heilbrigðismála í þessu landi, þá eru líka fleiri hlutir sem við þurfum að horfa til. Það er mjög alvarlegt að deilan sé komin í þetta mikinn hnút. Við höfum einfaldlega sagt að það er óraunhæft að semja um 50% launahækkun við eina stétt án þess að það hafi áhrif á aðrar stéttir.“ 

Læknanemar sækja ekki um stöður

Þórður Arnar Þórðarson
Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert