Andlát: Jónas Þórir Dagbjartsson

Jónas Þórir Dagbjartsson
Jónas Þórir Dagbjartsson

Jónas Þórir Dagbjartsson tónlistarmaður andaðist á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík laugardaginn 6. desember síðastliðinn, 88 ára að aldri.

Jónas Þórir fæddist í Vestmannaeyjum 20. ágúst 1926. Foreldrar hans voru Dagbjartur Gíslason múrarameistari og Margrét Runólfsdóttir. Fjögurra ára gamall fór hann í fóstur til móðursystur sinnar í Eyjum, Jónasínu Þóru Runólfsdóttur, og Þórarins Guðmundssonar skipstjóra, og ólst upp hjá þeim. Hann var einn fimm bræðra. Dagbjartur Kort Dagbjartsson, skáld og bóndi, er sá eini þeirra sem er á lífi.

Ungur að árum heyrði Jónas Þórir í fiðluleikara, fór heim til Jónasínu Þóru mömmu og sagðist vilja læra að spila á fiðlu. Hún fór með hann til Oddgeirs Kristjánssonar sem kenndi honum bæði á trompet og fiðlu. Að loknu gagnfræðaskólanámi ætlaði hann að fara í Loftskeytaskólann, en ekki voru teknir inn nemendur það árið. Þá sá hann auglýsingu þar sem óskað var eftir hljóðfæraleikurum til að spila í Sjálfstæðishúsinu í Reykjavík. Samfara spilamennskunni var hann í tónlistarnámi. Hann fór líka í útvarpshljómsveitina og spilaði bæði á fiðlu og trompet. Hann var einn af stofnendum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, lék í nokkrum hljómsveitum auk þess sem hann sá um tónlistarflutning í hádeginu og síðdegiskaffinu á Hótel Borg í 18 ár. Ennfremur kenndi hann víða, meðal annars á Akranesi, Keflavík og í Hafnarfirði.

Jónas Þórir og Ingrid Kristjánsdóttir, píanókennari og saumakona, gengu í hjónaband 1946. Þau eignuðust þrjú börn sem lifa foreldra sína. Barnabörnin eru 13 og barnabarnabörnin tíu. Hann lætur eftir sig Laufeyju Karlsdóttur sambýliskonu.

Útför Jónasar Þóris Dagbjartssonar verður gerð frá Dómkirkjunni miðvikudaginn 17. desember nk. og hefst athöfnin klukkan 14.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert