Ekkert sjóferðaveður næstu daga

Það veður alls ekkert sjóferðaveður næstu daga. Myndin er úr …
Það veður alls ekkert sjóferðaveður næstu daga. Myndin er úr safni. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Eitt skip liggur úti fyrir Vestfjörðum en önnur eru í vari. Flest skip héldu til hafnar eða í var í nótt og í dag, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni, en óvíst er hvenær þau komast aftur á miðin þar sem veður verða válynd út vikuna.

„Það eru að koma hér lægðir á færibandi með stuttum hléum á milli,“ segir Lárus Jóhannsson, vaktstjóri hjá Landhelgisgæslunni, sem fylgist með skipaumferð á Norður-Atlantshafi, vaktar björgunarkerfi og sendir út viðvaranir varðandi veður og aðra siglingahættu.

Að sögn Lárusar eru siglingaviðvaranir sendar út sex sinnum á sólahring allan ársins hring. Í veðrinu sem nú gengur yfir þurftu bátar alls staðar umhverfis landið að leita skjóls. Lárus gerir ráð fyrir að lítið sjóferðaveður verði næstu daga.

„Föstudagurinn verður kannski skástur og svo tekur önnur lægð við á laugardag og sunnudag,“ segir Lárus. Hann segir að aðfaranótt laugardags verði skaplegur vindur umhverfis landið en síðan sé von á lægð inn á Grænlandssund á laugardag og aðfaranótt sunnudags komi annar hvellur.

„Það verður lítið sjóferðaveður út þessa viku, nema þá eins og ég segi; þetta virðist vera skást fram að hádegi á laugardag. Þá gætu kannski einhverjir farið út. En svo, af spánni að dæma, kemur bara annar hvellur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert