Það verður stutt stórra högga á milli í veðurfarinu á Íslandi og miðunum í kringum landið því í kvöld er von á suðaustanstormi (18-25 m/s) um landið norðaustanvert með slyddu eða rigningu. Þessu fylgir talsverð úrkoma á Suðausturlandi.
Seint í kvöld gengur í norðaustanstorm eða -rok (20-28 m/s) með snjókomu á Vestfjörðum, sem síðan færist austur yfir landið í nótt og á morgun og má búast við mjög erfiðum akstursskilyrðum samfara því, fyrst á Vestfjörðum, en einnig norðantil á morgun.
Mikilli ölduhæð, yfir 12 metrar að norðan og norðaustan, er spáð undan Vestfjörðum í kvöld og aðfaranótt miðvikudags (10. des.).
Rétt að vera sérstaklega á varðbergi fyrir áhrifum af ágjöf og brimróti vegna vegna hárrar sjávarstöðu og talsverðs áhlaðanda.
Viðbragðsaðilum á Vesturlandi og Vestfjörðum er ráðlagt að fylgjast vel með aðstæðum og til að vera viðbúnir því að greiða úr vandræðum sem af þessu geta hlotist, segir á vef Veðurstofu Íslands.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni leituðu skip víða í var í gærkvöldi og nótt, meðal annars í Stakksfirði suður af Faxaflóa, Ísafjarðardjúpi og við Langanes.