Hafa frestað hátt í 700 aðgerðum

Læknar á gjörgæsludeild Landspítalans eru meðal þeirra sem leggja niður …
Læknar á gjörgæsludeild Landspítalans eru meðal þeirra sem leggja niður störf í dag og á morgun. Ómar Óskarsson

Eftir þessa viku er gert ráð fyrir því að um 700 skurðaðgerðum hafi verið frestað vegna verkfallsaðgerða Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélagsins. Það verður mjög þungt að vinna úr þessu og getur tekið marga mánuði. Þetta segir Alma Möller, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landspítalans.

Læknar á aðgerðarsviði eru meðal þeirra sem leggja niður störf í dag og einnig í gær, en undir sviðið heyra gjörgæslur, skurðstofur, speglanir, svæfingar, dauðhreinsun og blóðbankinn. Þá leggja læknar á rann­sókn­ar­sviði og kvenna- og barna­sviði jafnframt niður störf þessa daga.

Um 40 aðgerðir frestast á dag

Alma segir aðgerðir hafa fallið niður alla þá daga sem verkfallið hefur staðið, en mest þegar skurðlæknar og svæfingalæknar eru í verkfalli. Þá hafi um 40 aðgerðir frestast á dag, en allar bráðaaðgerðir hafa þó verið framkvæmdar. Þetta eru um 15-20 aðgerðir á dag. 

„Það er engu sinnt á verkfallsdögum nema bráðaskurðaðgerðum svo á hverjum tíma eru teknir þeir sem síst þola að bíða. Það er því stöðugt verið að raða á biðlista upp á nýtt,“ útskýrir Alma. Hún segir stöðuna grafalvarlega, enda komi það sér afar illa fyrir marga sjúklinga að þurfa að bíða eftir meðferð.

Verður þungt að vinna úr þessu

Hún segir þó vel hafa gengið að sinna erindum gjörgæslustöðvunum í Fossvogi og við Hringbraut, og því hafi verið sinnt sem sinna hafi þurft. „En það verður mjög þungt að vinna úr þessu. Nýting á skurðstofum og legudeildum er nú þegar mjög há og það má ekki við meiru. Við áætlum að það taki marga mánuði að vinna úr þessu og þá þyrfti í raun að koma aukin fjárveiting í það.“

Einhverjir læknar íhuga að segja upp

Þá segir hún einhverja lækna íhuga að segja upp, verði samningar ekki komnir á fyrir áramót. „Það er náttúrulega afleitt og við vonum að til þess komi ekki,“ segir hún. „Það er orðið ofboðslega brýnt að deiluaðilar fari að ná saman og þessu fari að ljúka.“ 

Læknafélag Íslands og samninganefnd ríkisins hófu fund hjá ríkissáttasemjara klukkan 15 í dag. Á miðviku­dag hefst verk­fall lækna á flæðis-, lyflækn­inga-, geð- og skurðlækn­inga­sviðum Land­spít­al­ans og á sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri.

Landspítali háskólasjúkrahús Í Fossvogi.
Landspítali háskólasjúkrahús Í Fossvogi. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert