Kröfurnar ekki breyst frá fyrsta fundi

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Málflutningur fulltrúa lækna er sá sami í dag og á fyrsta samningafundinum í kjaradeilu þeirra. Á sama tíma hefur ríkið komið með tillögur inn á fundina sem ekki hafa nægt til þess að leysa deiluna. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í dag en þrjátíu samningafundir hafa farið fram í deilunni.

Bjarni svaraði þar fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem lýsti miklum áhyggjur af stöðu mála í heilbrigðiskerfinu og kjaradeilu lækna. Bjarni tók undir það að mjög brýnt væri að leysa deiluna. Þar væri fleira undir en einungis launin. Vinnufyrirkomulagið virtist vera vaxandi hluti af óánægju lækna. Stjórnvöldum væri mjög umhugað um stöðugleikann í landinu og fyrir lægi að fylgst væri með því hvað einstaka stéttir gætu bætt kjör sín þar sem það gæti haft keðjuverkandi áhrif.

„Við öll sem búum í þessu landi viljum hafa öflugt heilbrigðiskerfi og gera eins vel við lækna og hægt er. En við viljum líka að það sé stöðugleiki í landinu, lág verðbólga og að því sem er til skiptanna sé dreift með sanngjörnum hætti. Það er afar erfitt að fylgja þeirri slóð ef orðið verður við þeim kröfum sem hafa verið uppi á borðum.“

Velta mætti fyrir sér hvort verið væri að kalla eftir margra tuga prósenta launahækkun og hvort ágreiningur væri í þinginu um það hvaða áhrif það kynni að hafa. Þá mætti velta því upp hvort það væri sanngjörn krafa að meðallæknir, sem væri með um 1,1 milljón króna á mánuði í heildarlaun og yfirlæknir með rúmar 1,3 milljónir, fengi til viðbótar ein meðalmánaðarlaun fólks í landinu.

Katrín benti á að formaður samninganefndar lækna hefði hafnað því að kröfur þeirra væru 50% hækkun launa. Þá væru grunnlaun lækna talsvert lægri en þær heildartekjur sem læknar gætu haft upp úr því ef vinnuframlag væri mikið. Þá fælist heilmikill óstöðugleiki í því ef heilbrigðiskerfið riðaði hreinlega til falls með lengri biðlistum og auknu álagi á almenning.

Bjarni sagði ákveðna tvöfeldni gæta hjá stjórnarandstöðunni. Þannig kallaði hún eftir hátekjuskatti sem læknar þyrftu að greiða og tekjujöfnuði á sama tíma og hún vildi mikla launahækkun til þeirra sem væru með meira en tvöföld meðallaun í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert