„Enginn samningur á leiðinni“

Læknar að störfum.
Læknar að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundi í kjaradeilu lækna sem átti að fara fram í gær var frestað, og ekki hefur verið boðaður annar fundur. Deiluaðilar hittust síðast á mánudag hjá ríkissáttasemjara, en engin niðurstaða náðist. Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segist ekki bjartsýnn um framhaldið. 

„Það er í sjálfu sér ekkert að frétta og viðræðum hefur hvorki miðað áfram né aftur á bak,“ segir hann. „Sáttasemjari er líklega að meta stöðuna og við búumst við því að vera boðuð á fund öðru hvoru megin við helgina.“

Þrjár vikur í næsta boðaða verkfall

Atkvæðagreiðslu LÍ um verkfallsboðun lækna fyrstu þrjá mánuði ársins 2015 lauk á mánudag, en um 98% þeirra sem kusu samþykktu fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir. Gert er ráð fyrir að þær hefjist þann 5. janúar næstkomandi.

„Það eru rúmar þrjár vikur í næsta boðaða verkfall, og þó það séu jól og áramót framundan þá eru einhverjir virkir dagar inn á milli sem verður líklega fundað á. En þetta er allt mjög óljóst,“ segir Þorbjörn.

Hann segist vonast til þess að tíminn fram að 5. janúar nýtist vel, en ef ekki muni koma til áframhaldandi verkfallsaðgerða. „Það er svosem enginn samningur á leiðinni en það er töluverður tími framundan og það er ljósið í myrkrinu eins og er.“

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert