Helgi Magnússon hafnar því alfarið að það kunni að skapa hættu á hagsmunaárekstrum að hann sé umsvifamikill fjárfestir í félögum í Kauphöllinni samtímis því að vera varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. „Þessir hagsmunir fara algjörlega saman,“ segir Helgi.
Hann er innherji í tveimur félögum. Lífeyrissjóðurinn styður hann til stjórnarsetu í N1 en í Marel er Helgi ekki studdur af sjóðnum. „Ef ég fjárfesti í þessum fyrirtækjum þá er það vegna þess að ég hef trú á að þeim muni vegna vel og er þá í enn betri aðstöðu en ella til að styðja sjóðinn í sama félagi.“
Í viðtali við ViðskiptaMoggann ræðir Helgi þá stöðu að lífeyrissjóðir séu helstu eigendur skráðra félaga. „Þeir átta sig á að ekki er unnt lengur að sitja hjá sem stór hluthafi og láta eins og stjórn félagsins komi þeim ekkert við.“