Strætó beint á Keflavíkurflugvöll

mbl.is/Hjörtur

Leið 55 mun keyra níu ferðir á dag milli miðborgar Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar frá byrjun janúar. Vagninn stoppar meðal annars við Kringluna, Fjörð í Hafnarfirði og Keili í Reykjanesbæ á leiðinni. Ferðalagið tekur eina klukkustund og sautján mínútur samkvæmt áætlun Strætó. Þetta kemur fram á vefsíðu Túrista.

Þessar nýju almenningssamgöngur eru á samstarfsverkefni Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Strætó og verður fyrsta ferðin þann 4. janúar.

Ódýrari ferðamáti á flugvöllinn

Strætómiði milli höfuðborgarinnar og Keflavíkurflugvallar mun kosta 1.400 krónur og fá farþegar skiptimiða til að nota í aðra vagna, t.d. við komuna til Reykjavíkur. Til samanburðar kostar farið með Airport Express 1.900 kr. (3.400 kr. báðar leiðir) og 1.950 kr. með Flugrútunni (3.500 kr. báðar leiðir) að því er fram kemur á vefsíðunni.

Fyrsti vagn á morgnana mun leggja í hann frá Umferðarmiðstöðinni klukkan 6:23 og verður kominn í flugstöðina klukkan tuttugu mínútur í átta. Íbúar höfuðborgarsvæðisins sem eru á leið í morgunflug með Icelandair eða WOW air geta því ekki nýtt sér þessar almenningssamgöngur. 

Áætlun Strætó passar þó vel fyrir morgunflug erlendu flugfélaganna auk annarra brottfara síðar um daginn. Við komuna til landsins verður einnig hægt að taka vagn í bæinn en fyrsta ferð frá Keflavíkurflugvelli er klukkan 6:35. Um helgar hefst aksturinn aðeins síðar og ferðirnar eru þá færri.

Ekki er komin nákvæm staðsetning fyrir biðstöðina sem sett verður upp hjá flugstöðinni en áætlað er að hún verði þar sem rúturnar stoppa í dag samkvæmt upplýsingum frá Strætó.

Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert