Skilja ekki eldgosin

Ekkert lát er á eldgosinu í Holuhrauni. Þá halda jarðhæringarnar …
Ekkert lát er á eldgosinu í Holuhrauni. Þá halda jarðhæringarnar í Bárðarbungu sömuleiðis áfram. mbl.is/RAX

Dansk­ur banki nefn­ir gos í Bárðarbungu sem mögu­leg­an viðburð sem hefði hrika­leg­ar af­leiðing­ar fyr­ir Evr­ópu á næsta ári. Sagt hef­ur verið frá spá bank­ans í er­lend­um miðlum. Páll Ein­ars­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði, seg­ir er­lenda blaðamenn oft ekki skilja að öll eld­gos þurfi ekki að leiða til ham­fara.

Gos í Bárðarbungu er sagt geta valdið stórskaða í land­búnaði, breytt veðurfari og stuðlað að allt að tvö­föld­un­ar á verði korns, að því er kem­ur fram í frétt á vef breska blaðsins The Tel­egraph um spá danska bank­ans Saxo. Haft er eft­ir sér­fræðingi hjá bank­an­um að eld­gosið sem staðið hef­ur yfir í yfir hundrað daga á Íslandi gæti nú byrjað á mun ofsa­fengn­ara tíma­bil.

Vísað er til goss­ins í Eyja­fjalla­jökli árið 2010 sem olli mikl­um rösk­un­um á flugi og til goss­ins í Laka árið 1783. Áhrif síðar­nefnda eld­goss­ins á veðurfar og upp­skeru á meg­in­landi Evr­ópu hafa verið nefnt sem ein af or­sök­um frönsku bylt­ing­ar­inn­ar.

„Þetta er svona dæmi­gerð frétt í út­lensku blaði þar sem menn eru að reyna að gera ham­fara­f­rétt­ir úr gos­frétt­um á Íslandi. Blaðamenn­irn­ir skilja ekki al­menni­lega að það þurfi ekki öll eld­gos að vera ein­hverj­ar gríðarleg­ar ham­far­ir. Þetta er tekið frá banka­starfs­mönn­um sem eru að reyna að meta áhættu. Blaðamaður sem fer yfir um­sögn banka­manns um eld­gos, það lof­ar ekki góðu,“ seg­ir Páll sem er pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands.

Al­verstu ham­far­irn­ar alltaf rifjaðar upp

Eld­gos á Íslandi geta að sjálf­sögðu haft al­var­leg hnatt­ræn áhrif og hafa gert það eins og Lakagígagosið sýn­ir, að sögn Páls. Eng­in ástæða sé hins veg­ar til að vera með slík­ar ham­fara­spár í hvert skipti sem gýs hér á landi.

„Hér gýs að meðaltali annað hvort ár. Við feng­um gos sem var í sjálfu sér ekki stórt í Eyja­fjalla­jökli árið 2010 sem hafði mik­il áhrif. Svo kom annað miklu stærra gos ári seinna í Grím­svötn­um. Það hafði lít­il áhrif. Það fer eft­ir mjög mörg­um atriðum hversu mik­il áhrif gos á Íslandi hafa. Það er ekki bara stærð gos­ana og að það skuli gjósa. Þessi eld­fjöll okk­ar gjósa mjög oft en oft­ast eru þetta litl­ir at­b­urðir og hafa lít­il áhrif út fyr­ir land­stein­ana,“ seg­ir Páll.

Þá bend­ir hann á að menni rifji alltaf upp mestu ham­far­ir sem þekkt­ar eru í þessu sam­hengi, Lakagígagosið í þessu til­felli. Það sé hins veg­ar lang­versta gos sem vitað er um hér á landi.

„Þeir svíkj­ast ekk­ert um það þarna að vitna í það. Það er mik­ill mun­ur á því gosi og því sem er næst­stærst. Þetta gos sem við upp­lif­um núna er næst­stærsta hraungos síðan í Lakagíg­um. Það er núna ekki nema 1/​10 af því gosi en er samt næst­stærsta hraungosið,“ seg­ir Páll til að setja mun­inn í sam­hengi.

Bank­inn hef­ur til­nefnt nokkra viðburði sem ólík­legt er að eigi sér stað en gætu haft geig­væn­leg áhrif á álf­una. Aðrir at­b­urðir sem bank­inn nefn­ir eru yf­ir­vof­andi súkkulaðiskort­ur í heim­in­um, greiðslu­fall rúss­neska rík­is­ins og stór­sig­ur breska sjálf­stæðis­flokks­ins Ukip í bresku þing­kosn­ing­un­um á næsta ári.

Frétt The Tel­egraph af spá danska bank­ans um ham­faragos í Bárðarbungu

Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ.
Páll Ein­ars­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við HÍ.
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert