Tjón vegna umboðsskorts Gunnars Smára

Gunnar Smári Egilsson.
Gunnar Smári Egilsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt rétt Svenn Aage Hylleröd Dam og Morten Nissen Nielsen til skaðabóta úr hendi Gunnars Smára Egilssonar vegna tjóns af völdum umboðsskorts Gunnars Smára við gerð hluthafasamnings, dags. 2. apríl 2006 og við gerð hlutahafasamnings, dags. 23. apríl 2006.

Atvik málsins eru þau að Svenn Aage Hylleröd Dam og Morten Nissen Nielsen voru ráðnir til starfa hjá 365 Media Scandinavia A/S á árinu 2006, sem var danskt dótturfélag Dagsbrúnar hf. Var ráðningarsamningurinn við Svenn Dam dags. 23. mars 2006 og undirritaður af Gunnari Smára fyrir hönd 365 Media Scandinavia A/S. Samkvæmt samningnum skyldi Svenn Dam starfa sem framkvæmdastjóri 365 Media Scandinavia A/S.

Ráðningarsamningurinn við Morten Nissen Nielsen var dags. 23. apríl 2006 og undirritaður af Svenn Dam fyrir hönd fyrir hönd 365 Media Scandinavia A/S. Var Morten Nissen ráðinn til að gegna starfi framkvæmdastjóra dótturfélags 365 Media Scandinavia A/S, sem skyldi gefa út fríblað í Danmörku, Nyhedsavisen.

Samkvæmt grein 5.1 í ráðningarsamningum var mælt fyrir um að Svenn Dam væri skylt að kaupa 75.000 hluti í 365 Media Scandinavia A/S og Morten Nissen var skylt að kaupa 50.000 hluti í sama félagi. Í sömu grein var einnig mælt fyrir um sölurétt þeirra á þessum bréfum til Dagsbrúnar hf. að fullnægðum nánari skilyrðum.

Í samræmi við ráðningarsamningana hjá 365 Media Scandinavia A/S var gert tvenns konar efnislega samhljóða hluthafasamkomulag við Dam og Nielsen, dags. 2. apríl 2006 og 23. apríl 2006, þar sem m.a. var mælt fyrir um kaup- og sölurétt Dam og Nielsen á hlutabréfum í 365 Media Scandinavia A/S. Gunnar Smári ritaði undir í báðum tilfellum fyrir hönd Dagsbrúnar hf.

Samkvæmt grein 2.1 í hluthafasamkomulaginu bar Dam og Nielsen innan 90 daga frá undirritun samkomulagsins að kaupa af Dagsbrún hf.

Samkvæmt grein 4.4 í samkomulaginu var Dam og Nielsen heimilt að selja Dagsbrún hf. þá hluti sem þeir höfðu keypt í félaginu 365 Media Scandinavia A/S á tilteknu verði og að liðnum ákveðnum tíma þannig að 1/3 hlutabréfanna yrði keyptur á genginu 45 hver hluti eftir 1. júlí 2009, 1/3 hlutabréfanna á genginu 45 hver hluti eftir 1. júlí 2010, og 1/3 hlutabréfanna á genginu 45 hver hluti eftir 1. júlí 2011, í öllum tilvikum að því tilskildu að tilkynning um það væri afhent eigi síðar en 15. nóvember 2011.

Skömmu eftir samningsgerðina, eða þann 17. nóvember 2006, var Dagsbrún hf. skipt upp í tvö félög, annars vegar Teymi hf. og hins vegar Íslenska afþreyingu hf. Virðast bæði félögin hafa tekið yfir skuldbindingar Dagsbrúnar hf.

Þann 10. október 2008 var bú 365 Media Scandinavia A/S tekið til gjaldþrotaskipta í Danmörku af Sö- og Handelsrettens Skifteafdeling og lauk skiptameðferð á búinu 4. desember 2009 sem eignalausu. Samkvæmt kröfuhafalista fyrir búið lýsti Svenn Dam 2.296.000 DKR. í búið og Morten Nissen Nielsen 2.142.000 DKR.

Þann 17. júní 2009 tilkynntu Dam og Nielsen Íslenskri afþreyingu hf. að þeir hygðust nýta sölurétt sinn samkvæmt hluthafasamkomulögunum með kröfu um innlausn hlutabréfanna sem þeir keyptu í 365 Media Scandinavia A/S á árinu 2006 þegar þeir voru ráðnir til starfa hjá félaginu. Bréfin voru ekki innleyst þar sem bú Íslenskrar afþreyingar hf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 2. júlí 2009.

Samkvæmt auglýsingu skiptastjóra þrotabús Íslenskrar afþreyingar hf., dags. 11. júní 2012, var skiptum á búinu lokið þann 10. janúar 2012. Voru forgangskröfur, 4.113.293 krónur, greiddar að fullu. Upp í almennar kröfur voru greiddar 463.228.363 krónur eða 11,14% Samkvæmt skrá um lýstar kröfur í bú Íslenskrar afþreyingar kröfðust Dam og Nielsen þess að kröfur þeirra yrðu viðurkenndar sem almennar kröfur í búið. Í ódagsettu svarbréfi skiptastjóra þrotabús Íslenskrar afþreyingar til lögmanns Dam og Nielsen, hafnaði skiptastjórinn kröfum Dam og Nielsen á þeim grundvelli að Gunnar Smári hefði ekki haft umboð til að gera áðurgreint hluthafasamkomulag við Dam og Nielsen fyrir hönd félagsins. Auk þess sem ekki hefðu verið veittar nægar upplýsingar um hvernig Dam og Nielsen hygðust efna skuldbindingar sínar samkvæmt hluthafasamkomulaginu í ljósi þess að félagið 365 Media Scandinavia A/S væri ekki lengur „rekstrarhæft“ félag.

Gátu ekki sótt rétt sinn

Svenn Aage Hylleröd Dam og Morten Nissen Nielsen byggðu viðurkenningarkröfur sína á því að þeir hafi orðið fyrir tjóni og eigi rétt á skaðabótum úr hendi Gunnars Smára af völdum umboðsskorts hans við gerð hluthafasamninga við þá þann 2. apríl og 23. apríl 2006. Telja þeir að fjártjón þeirra felist í því að kröfum þeirra í þrotabú Íslenskrar afþreyingar hf. hafi verið hafnað þar eð hluthafasamningarnir sem þeir byggðu rétt sinn á hafi ekki verið gildir vegna umboðsskorts Gunnars Smára.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að vegna umboðsskorts Gunnars Smára gátu Dam og Nielsen ekki sótt rétt sinn samkvæmt hluthafasamningunum á hendur Íslenskri afþreyingu hf., en við gjaldþrotaskipti á því búi komu m.a. rúmlega 11% upp í almennar kröfur auk þess sem þeir hafa fengið fjárhæðir upp í kröfu sínar annars staðar frá. Gunnar Smári beri ábyrgð á þeim umboðsskorti og því tjóni sem af því hlaust, sbr. 25. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Nyhedsavisen.
Nyhedsavisen. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert