Áróðursmaskína stjórnvalda fór í gang

Yfir 700 aðgerðum hefur verið frestað á Landspítalanum vegna verkfalls …
Yfir 700 aðgerðum hefur verið frestað á Landspítalanum vegna verkfalls lækna síðustu vikur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar lygin er flutt nógu oft er hætt við að margir fari að telja hana sanna,“ skrifar Eiríkur Guðmundsson, læknir, um það sem hann segir vera áróðursmaskínu stjórnvalda í læknadeilunni.

Eiríkur situr í samninganefnd Skurðlæknafélagsins og segir í færslu sem hann birtir á Facebook, og vakin er athygli á á síðunni Raddir íslenskra lækna, að það hafi verið lærdómsríkt að taka þátt í kjarabaráttu lækna í vetur.

„Líkt og við var að búast fór áróðursmaskína stjórnvalda í gang þegar stefndi í verkfall lækna og gangur hennar hertist til muna eftir verkföll hófust,“ skrifar Eiríkur. „Svona áróðursvélar eiga það til að sveigja sannleikann aðeins og fegra hlutina sér í hag.“

Þá gagnrýnir Eiríkur sérstaklega fjármálaráðherra sem ræddi um kjaradeiluna og kröfur lækna á þingfundi í vikunni.

„Fjármálaráðherra stígur síðan á stokk og segir kröfur okkar of miklar - krafan um 50% hækkun sé óraunhæf. Þegar lygin er flutt nógu oft er hætt við að margir fari að telja hana vera sanna,“ skrifar Eiríkur. „Þegar maður hins vegar veit hið sanna í málinu fer lygin að verða nokkuð þreytandi, sérstaklega þegar hún er flutt af jafn miklum móð og gert er í þessari deilu okkar við ríkið. Nú er meira að segja verðandi landlæknir farinn að taka undir trumbusláttinn, en hann veit kannski ekki betur og trúir því sem fjölmiðlar flytja?“

Eiríkur segir að læknar hafi ekki rædd mikið opinberlega um sínar kröfur en að kannski fari að verða breyting þar á. „Þannig veit ég fyrir víst að fjármálaráðherra fer með rangt mál þegar hann segir okkur fara fram á 50% hækkun. Hann hefur haldið þessu fram í fjölmiðlum og á Alþingi um allnokkurt skeið, jafnvel áður en við skurðlæknar nefndum nokkra tölu í viðræðum okkar við samninganefnd ríkisins, SNR.“

Eiríkur segist geta fullyrt að kröfur skurðlækna séu ekki þær sem fjármálaráðherra nefnir. „Ég get þó fullyrt að skurðlæknar eru EKKI að fara fram á 50% launahækkun. Við erum EKKI HELDUR að fara fram á 40% hækkun. Við erum ekki einu sinni að fara fram á að fá fulla leiðréttingu sem næmi því sem við höfum dregist aftur úr almennri launaþróun á undanförnum árum. Við viljum hins vegar fá einhverja leiðréttingu, því annars endar þetta í alvöru með því að stór hluti lækna hættir á spítölum landsins og þeir sem eru erlendis í sérnámi koma ekki heim að loknu námi.“

Eiríkur segist nú spyrja sig hvort að fjármálaráðherra fari vísvitandi með rangt mál. „Er fjármálaráðherra vísvitandi að segja þingi og þjóð ósatt, eða eru hans undirsátar að segja ráðherra ósatt?

Þetta er að verða þreytandi og ég veit ekki hvað ég nenni lengur að hlusta á þennan ósannindasöng...“

Kjaradeila lækna hefur staðið vikum saman. Hertar verkfallsaðgerðir hafa verið …
Kjaradeila lækna hefur staðið vikum saman. Hertar verkfallsaðgerðir hafa verið boðaðar á næsta ári. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert