Harðari aðgerðir á nýju ári

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur enn ekki verið boðað til nýs …
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur enn ekki verið boðað til nýs fundar vegna deilunnar. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Nú eru lygnari dagar framundan því það er ekki verkfall. Það tekur því við öðruvísi samningsumhverfi, en hvort það breytir einhverju veit ég ekki,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is en ekki hefur verið fundað hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu lækna frá því á mánudag sl.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur enn ekki verið boðað til nýs fundar vegna deilunnar.

Atkvæðagreiðslu Læknafélags Íslands um verkfallsboðun lækna fyrstu þrjá mánuði ársins 2015 lauk fyrir um viku síðan og samþykktu um 98% þeirra sem kusu fyrirhugaðar aðgerðir. Munu aðgerðirnar að óbreyttu hefjast þann 5. janúar næstkomandi og verða þær með breyttu sniði.

„Þær verða aðeins harðari því þá fer hver eining í fjögurra daga verkfall í einu auk þess sem engar verkfallslausar vikur verða inn á milli,“ segir Þorbjörn og bætir við að mikill samhugur sé nú í læknum. „Og kom það bersýnilega í ljós í atkvæðagreiðslunni. Það var betri þátttaka en í atkvæðagreiðslunni í október og enn meiri samstaða því það var í raun innan við eitt prósent sem greiddi atkvæði gegn verkfallsboðun,“ segir hann.

Þorbjörn segir erfitt að meta hvort menn geti leyft sér að vera bjartsýnir um framhaldið því líkt og í öðrum kjaradeilum þá getur lausn ávallt komið skyndilega upp. Ákveði stjórnvöld hins vegar að höggva á hnútinn með lagasetningu kann slíkt að hafa skaðleg áhrif í för með sér. 

„Ég held að það væri óheppilegt að leysa þessa deilu með lagasetningu og óttast ég að einhverjir læknar myndu segja upp störfum í kjölfarið á slíkri lausn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert