Eigendur veitingastaðarins Apóteksins í Austurstræti í Reykjavík reikna með að opna staðinn aftur í næstu viku, vonandi fyrir næstu helgi.
mbl.is greindi frá brunanum í nótt
Eldur kom upp í vegg á bak við grill í eldhúsi staðarins um klukkan eitt í nótt og var hann rýmdur ásamt hóteli sem er á hæðunum fyrir ofan.
Um 90 manns voru á hótelinu og fjölmargir á veitingastaðnum en hann var opnaður fyrir tæpri viku.
Að sögn Bentos Costa, eins af eigendum veitingastaðarins, urðu ekki miklar skemmdir á staðnum. Eru skemmdirnar að mestu bundnar við vegginn sem eldurinn komst í. Starfsfólkið varð aldrei vart við eld, aðeins reyk.
„Svona getur komið fyrir, við brugðumst hratt við og það urðu engar meiriháttar skemmdir,“ segir Bento í samtali við mbl.is.
Hann segist hafa skroppið aðeins heim að sofa en nú er starfsfólkið að mæta til starfa á ný, tilbúið að þrífa og undirbúa staðinn fyrir opnun á ný.
Frétt mbl.is: Eldur í Apótekinu