Samkvæmt nýrri danskri rannsókn fer geðheilsa danskra unglinga og barna versnandi og þá sérstaklega stúlkna. Ein af hverjum fjórum 19 ára dönskum stúlkum telja að þær glími við geðræn vandamál og 7% ungra kvenna. Þær eru kvíðnar og sjálfsvígstilraunum hefur fjölgað meðal þeirra.
Sálfræðingarnir Sóley Dröfn Davíðsdóttir og Hrund Þrándardóttir sinna sitthvorum aldurshópnum en segja ljóst að hvort sem umræði börn, unglinga eða fullorðna séu konur líklegri til að leita sér aðstoðar sálfræðings.
Hrund er sálfræðingur á Stofunni sálfræðiþjónustu sem sérhæfir sig í að aðstoða börn og ungmenni. Hún segir almennt leitað oftar til sálfræðinga en áður og að það haldist í hendur við minnkandi fordóma gegn andlegum veikindum eða vanlíðan. „Kvíðinn hjá ungu fólki snýr oft að svipuðum hlutum, bæði strákar og stelpur greinast með allar tegundir af kvíða þó svo að við sjáum stelpurnar oftar,“ segir Hrund.
Skjólstæðingar Hrundar glíma margir hverjir við frammistöðukvíða, ýmist vegna skóla, íþrótta eða annarra áhugamála en á síðustu árum hefur aukin félagslegur þrýstingur á frammistöðu komið til vegna tækniframfara.
„Það sem er búið að aukast mikið á nokkrum árum er notkun samfélagsmiðla. Það er stöðugt áreiti á krökkum frá Facebook, Snapchat og því um líku og það virðist vera ógeðslega skemmtilegt alls staðar annars staðar,“ segir Hrund. „Það sama gildir um okkur fullorðna fólkið. Það er auðvelt að hugsa hvað það er alltaf gaman og flott hjá öllum öðrum en það setja fáir mynd af draslinu heima á Facebook.“
Sóley Dröfn, sem er sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni og höfundur bókarinnar Náðu tökum á kvíða, fælni og áhyggjum, tekur í svipaðan streng. Hún segir um 60% skjólstæðinga Kvíðameðferðarstöðvarinnar vera konur en að stór hluti þeirra séu ungar konur þar sem kvíði verði oft skárri með aldrinum eftir því sem fólk lærir að fást við hann.
„Þessi mál má að þriðjungi rekja til erfða en við það bætist síðan vandi fólks í lífinu. Þeir sem eru með kvíða hafa einhversstaðar lært að það er ástæða til þess að vera á varðbergi eða að tilteknar aðstæður eða fyrirbæri séu varhugaverð,“ segir Sóley.
Hún segir ýmsar ástæður búa að baki kvíða og nefnir bæði ótryggar aðstæður í æsku sem og ofverndun auk ýmissa áfalla eða misnotkunar.
„Konur eru útsettari fyrir margt sem veldur kvíða og það skýrir að einhverju leiti aukna tíðni hans hjá konum. Þær ganga í gegnum meðgöngu og fæðingu, þær eru útsettari fyrir kynferðisofbeldi, þeim eru send annars konar skilaboð úr samfélaginu og öðruvísi kröfur gerðar til þeirra,“ segir Sóley.
„Við fáum mjög skýr skilaboð um að við eigum að vera sætar og grannar, vel til hafðar, vel menntaðar og með starfsframa en samt eigum við að vera að elda allt frá grunni o.s.frv,“ heldur hún áfram.
Hún segist telja að oft geti verið erfiðara að vera kona í dag en það var fyrir nokkrum áratugum þegar konur áttu einungis að setja metnað sinn í að vera húsmæður. Þrátt fyrir að nú séu kröfur gerðar til kvenna á fleiri sviðum, svo sem í atvinnulífinu, þýðir það nefnilega ekki að krafan um hina fullkomnu húsmóður hafi horfið.
Sóley bendir á að karlmenn eigi erfiðara með að leita sér aðstoðar en konur og að það geti skýrt muninn á tölum milli kynjanna að einhverju leiti. Hún bætir þó við að á móti komi að konur eigi oft erfiðara með að fjármagna meðferð þar sem þær hafi að meðaltali lægri laun og geti jafnframt oft átt erfiðara með að komast frá vegna barna.
„Það er ýmislegt sem heldur aftur að fólki og því miður leitar fólk sér alltof sjaldan aðstoðar og jafnvel einhverjum áratugum eftir að vandinn hefst. Það er stundum skömm í fólki. Í daglegu tali er gjarnan gert lítið úr kvíða og þá sérstaklega kvíða kvenna. Það þykir einhvern veginn eðlilegt að konur séu kvíðnar.“
Desember mánuður getur verið mörgum erfiður vegna þeirrar pressu sem samfélagið skapar í kringum jólahátíðina. Sóley segir jólin vera erfiðan tíma fyrir þá sem eru kvíðnir í grunninn og að einstaklingarnir sjálfir, sem og aðrir geri meiri kröfur en vanalega.
„Börn bera sig saman við önnur börn og hvað þau fá í skóinn og í jólagjöf og það er pressa úr öllum áttum. Mest er hún samt frá okkur sjálfum. En þá er spurning hver tilgangurinn er ef við getum ekki notið jólanna vegna stress og pirrings?“ segir Sóley.
„Það má draga úr, baka minna, skreyta minna, þrífa minna og sjá hvað gerist. Í stað þess að gera allt fullkomið og flott má athuga hvort maður geti einhvern veginn gert sér hlutina auðveldari og haft tíma til að setjast niður með börnunum og átt góða stund.“
Jólin eru hátíð barnanna en eins og Sóley bendir á bera börn sig saman við jafnaldra sína og staðlaðar hugmyndir um jólahald. Það getur skapað mikla pressu þegar foreldrar hafa lítið milli handana. Hrund segist ekki vör við að jólin hafi mikil áhrif á þau börn og unglinga sem hún hefur hjálpað, enda eru peningavandræði foreldra sjaldnast rótin að þeirra vanlíðan.
„Þjónustan er ekki niðurgreidd eins og önnur sálfræðiþjónusta. Mögulega hittum við ekki þau börn sem eru verst sett hvað fátækt varðar vegna þess að foreldrar þeirra hafa ekki efni á því að koma,“ segir hún og bætir við að það sé mikið áhyggjuefni. „Aðgengi að sálfræðiþjónustu er alls ekki nógu góð og það er ekki á færi hvers sem er að fara til sálfræðings.“