Fólk ferjað til vinnu á Akureyri

Mjög snjóþungt er nú á Akureyri.
Mjög snjóþungt er nú á Akureyri. Ljósmynd/Einar Guðmann

„Það er búið að vera mjög mikið að gera, það er eiginlega ekki hægt að segja annað,“ segir Gunnar Þ. Garðarsson, formaður tækjaflokks hjá björgunarsveitinni Súlum á Akureyri, en um tíma kyngdi þar niður snjó svo götur urðu á skömmum tíma ófærar með öllu.

Hafa íbúar á Akureyri því verið hvattir til þess að halda sig heima.

Gunnar Þ. segir í samtali við mbl.is að um tuttugu björgunarsveitamenn hafi verið við störf í bænum frá því á miðnætti og voru þeir einkum fengnir til þess að ferja heilbrigðisstarfsmenn til og frá vinnu. „Það er búið að panta okkur í vaktaskipti alveg fram undir miðnætti. Á það jafnt við um sjúkrahús og aðrar stofnanir.“

Spurður hvort björgunarmenn á Akureyri hafi haft tíma til þess að sinna öðrum tilfallandi verkefnum kveður Gunnar Þ. já við. „Við höfum sinnt smáverkefnum þegar tími gefst,“ segir hann og bendir á að björgunarmenn hafi þá einkum reynt að aðstoða þá ökumenn sem fest hafa bíla sína á götum bæjarins.

Björgunarmenn eru þó ekki þeir einu sem veitt hafa ökumönnum í vandræðum aðstoð því Gunnar Þ. segist vita til þess að jeppakarlar hafi einnig verið iðnir við að veita hjálparhönd þar sem þeir rúntuðu um snjóþungar götur Akureyrar.

Þrátt fyrir mikinn snjó á götum og gangstígum er vart hægt að kalla Akureyri draugabæ þar sem talsverður fjöldi fólks hefur látið sjá sig utandyra. „Fólki finnst gaman að þessu. Það klæðir sig upp og fer út í gönguferðir enda er ekki það slæmt veður núna.“

Fyrr í dag sendi Einar Guðmann mbl.is nokkrar myndir sem teknar voru í miðbæ Akureyrar í morgun. Hægt er að nálgast myndirnar hér.

Á veðurvef mbl.is má finna allar helstu upplýsingar um veður á landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert