Hvetja fólk til að halda sig heima

Það er þungfært á Akureyri og takmarkað skyggni. Þessi mynd …
Það er þungfært á Akureyri og takmarkað skyggni. Þessi mynd var tekin rétt eftir kl. 10. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Síðustu klukkustundir hefur veður á Akureyri farið versnandi og stofnbrautir sem voru færar í morgun eru margar hverjar ófærar nú. Að sögn lögreglunnar á Akureyri hafa björgunarsveitir staðið í ströngu við að bjarga fólki sem hefur fest bíla sína, en íbúar eru hvattir til þess að halda sig heima, nema erindi þeirra séu brýn. Sjá veðurvef mbl.is.

„Í morgun voru helstu stofnbrautir færar, en færðin inni í hverfunum var mjög slæm, og undanfarna tvo klukkutíma hefur veðrið bara verið að versna og þessar stofnbrautir urðu bara margar hverjar illfærar og sumar bara ófærar, nema náttúrlega jeppum og þess háttar bílum,“ segir Haraldur Logi Hringsson hjá lögreglunni á Akureyri. Hann segir ekkert vit fyrir fólk að vera á ferðinni að nauðsynjalausu, sérstaklega ekki á fólksbílum.

Sjá einnig frétt mbl.is: Sjáðu ofsaveðrið „í beinni“

Haraldur segir að snjóruðningsvélar bæjarins hafi verið ræstar út en skafrenningurinn sé það mikill að óvíst sé um árangur. Hann ítrekar skilaboð til fólks um að halda sig heima og segir leigubílstjóra t.d. hætta akstri.

„Þeir eru búnir að gefast upp á þessu og það er búið að vera mikið hjá björgunarsveitunum, bara við að koma fólki til aðstoðar sem er búið að festa sig og skilja eftir bílana og annað,“ segir Haraldur. „Í morgun voru það helst fólksbílarnir, stærri bílarnir sluppu, en svo jók í vindinn og annað og það var ekkert um annað að ræða en að fá björgunarsveitirnar út á fullu til aðstoðar,“ bætir hann við.

Hann segir lögregluna meta ástandið jafnóðum, en eins og staðan er ætti fólk ekki að vera á þvælingi nema ef brýn nauðsyn krefur.

Uppfært kl. 11.21:

„Þetta er nú svona sitt lítið af hverju, aðallega að draga fasta bíla og sinna heilbrigðiskerfinu,“ segir Gunnar Þ. Garðarsson hjá björgunarsveitinni Súlum á Akureyri um verkefni morgunsins.

Hann segir að það sé nú í algjörum forgangi að koma heilbrigðisstarfsfólki, það er þeim sem starfa t.d. á sjúkrahúsum, á sambýlum og við heimaaðhlynningu, til og frá vinnu og brýnir fyrir fólki að vera ekki á ferðinni.

„Allt sem heitir ekki jeppi hefur ekkert út að gera og við meira að segja höfum verið að sækja okkar meðlimi sem eiga óbreytta jeppa, því þeir komast ekki úr úthverfunum,“ segir hann.

Björgunarsveitarmenn Súlna sem hafa verið á ferðinni í morgun segja talsverða, og of mikla, umferð hafa verið á götum bæjarins í morgun en heldur hafi dregið úr henni.

Rauði liturinn á kortinu táknar ófæra vegi um landið kl. …
Rauði liturinn á kortinu táknar ófæra vegi um landið kl. 10.45 í dag. Skjáskot af vef Vegagerðarinnar
Það er lítið skyggni á Akureyri og þungfært eða ófært …
Það er lítið skyggni á Akureyri og þungfært eða ófært víða. Ljósmynd/Johanna Niewada
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka