Stefán Máni er á nýjum slóðum

Stefán Máni
Stefán Máni Morgunblaðið/Golli

Litlu dauðarnir er nýjasta skáldsaga Stefáns Mána en þar segir hann sögu manns sem reynir að bjarga sér og fjölskyldu sinni úr vandræðum en kemur þá öllum í enn meira klandur.

„Að mörgu leyti er þessi bók ólík mínum fyrri bókum,“ segir Stefán Máni.„Aðalpersónan er hvorki glæpamaður né lögga heldur einn af okkur. Þetta er ekki eiginleg glæpasaga en samt spennubók. Mig langaði til að skrifa spennandi sögu án þess að það væri mikið verið að drepa og meiða. Drifkrafturinn í sögunni er andlegri og sálfræðilegri en ofbeldi og hryllingur.“

Ertu ekki sammála því að það megi greina pólitískan tón í þessari bók?

„Ég fer inn á þær brautir því þarna eru umræður um samfélagið og öflin í samfélaginu. Ég er alls ekki flokkspólitískur en þar sem ég bý í þessu samfélagi hef ég skoðanir á því. En ég er ekki vakinn og sofinn á netinu að segja álit mitt og rífast. Mig langar ekki þangað.“

Þú ert að taka vissa áhættu með því að vera á nýjum slóðum sem rithöfundur. Finnst þér þessi áhætta hafa borgað sig?

„Í sjálfu sér er ekki hægt að spyrja fyrr en að leikslokum en mér finnst áhættan hafa borgað sig. Það hefði verið auðvelt og fyrirsjáanlegt að gera það sama og síðast en mig langaði alls ekki til þess. Mér fannst spennandi að taka þessa áhættu og nauðsynlegt að stíga út fyrir þægindarammann og gera eitthvað nýtt. Ég hef fengið mjög góð viðbrögð frá lesendum mínum. Það getur vel verið að einhverjir vilji fá sín morð og viðbjóð en ég held að margir sem eru ekki fyrir morð og hrylling og hafa ekki lagt í að lesa bækurnar mínar muni lesa þessa bók.“

Ertu farinn að huga að næstu bók?

Já, það er óhjákvæmilegt. Það er ekki nema ár í næstu jól. Ég ætla að vera með unglingabók í vor, framhald af Úlfshjarta sem kom út fyrir örfáum árum. Úlfshjarta er lesin í skólum og er mjög vinsæl. Ég fæ sterk viðbrögð frá unglingum og ekki síst frá foreldrum sem eru himinlifandi af því að unglingurinn þeirra er allt í einu farinn að lesa. Strákar sem eru yfirleitt tregir til að lesa eru farnir að biðja um bók í jólagjöf. Þannig að mér rennur blóðið til skyldunnar og hlakka til að koma með framhaldið. Næsta haust verð ég svo með bók, stóra spurningin er hvort Hörður Grímsson verði þar persóna. Hann mun snúa aftur en ég get samt ekki lofað að það gerist næsta haust.“

Hvernig finnst þér að taka þátt í jólabókaslagnum?

„Það er líflegt og skemmtilegt, en um leið stressandi og tekur á taugarnar. Ég er á þeytingi að lesa upp og fer í viðtöl og þarf að yfirgefa þægindahring heimilisins og skrifstofunnar. Ég hlakka til að leggjast upp í sófa á aðfangadag með góða bók og slaka á.“

Ertu búinn að ákveða hvaða bók það verður?

„Nei, það fer eftir því hvað ég verð heppinn með jólagjafir. Siggi Páls væri til dæmis góður sófanautur.“

Ertu búinn að lesa eitthvað af jólabókunum?

Ég er búinn að lesa Gyrði, les allar hans bækur og er stórhrifinn af þeim. Hann er frábær stílisti með ríkt ímyndunarafl og það er gefandi að lesa bækur hans.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert