„Lausn kjaradeilu ríkisins og lækna þolir enga bið,“ segir í yfirlýsingu frá formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. „Ótal rannsóknum, aðgerðum og sjúkrahúskomum hefur verið frestað, biðlistar hrannast upp og einstakir læknar segja upp störfum. Hertar verkfallsaðgerðir eru boðaðar eftir áramót. Forstjóri Landspítalans segir réttilega lausn deilunnar vera mikilvægasta verkefni þjóðarinnar.“
Formennirnir segja að svo virðist sem ríkisstjórnin sé ráðalaus í deilunni en brúa verði það bil sem er á milli afstöðu lækna og ríkisins. „Landsmenn eiga heimtingu á því að stjórnvöld geri allt sem mögulegt er að til að greiða fyrir lausn deilunnar.“
Samkvæmt 5. mgr. 20 gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur getur ríkisstjórnin, ef sýnt þykir að vinnudeila hafi mjög alvarlegar afleiðingar, skipað sérstaka sáttanefnd til að vinna að lausn deilunnar. Skal þá samráð haft við ríkissáttasemjara og deiluaðila áður en sáttanefnd er skipuð.
„Við formenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata hvetjum ríkisstjórnina til að hugleiða beitingu þessa úrræðis og ræða við ríkissáttasemjara um hvort þessi leið geti auðveldað það verkefni að brúa bil milli aðila. Það er ekki hægt að sitja með hendur í skauti við þessar aðstæður,“ segir í yfirlýsingunni en undir hana skrifa Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, Guðmundur Steingrímss, formaður Bjartrar framtíðar, og Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata.