Borgin fargar húsgögnunum

Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur mbl.is/Ómar

Reykjavíkurborg mun farga þeim húsgögnum sem framleiðandi Cassina-húsgagna hefur gert kröfu þar um og finna má í ráðhúsi Reykjavíkur. Þetta staðfestir borgarlögmaður í samtali við mbl.is. Borgin dregur ekki í efa fullyrðingar rétthafans um að sé að ræða eftirlíkingu af Cassina-húsgögnum.

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag hefur framleiðandi húsgagnanna á Ítalíu farið fram á að eftirlíkingar af þeim sem finna má í ráðhúsi Reykjavíkur verði eytt og frumhönnun keypt í staðinn. Húsgögnin hafa verið í ráðhúsinu allt frá árinu 1992 þegar húsið var vígt og tekið í notkun.

Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður segist ekki geta skýrt hvað hafi gerst þegar húsgögnin voru keypt en það hafi verið eftir opinbert ferli og annað verði ekki ráðið af gögnum málsins en að talið hafi verið að um samþykkt eintök hafi verið að ræða. Það hafi fyrst verið núna þegar krafa framleiðandans var sett fram að annað hafi komið í ljós.

Hún segir að Reykjavíkurborg muni ekki draga fullyrðingar framleiðandans í efa og að tekin hafi verið sú ákvörðun að farga húsgögnunum.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um kaup á frumhönnuninni.

Frétt mbl.is: Borgin vitað lengi um eftirlíkingarnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert