Horfur á hríðarbyl suðvestanlands

mbl.is/Kristinn

Vindur gengur niður eystra í kvöld og nótt. Í fyrramálið nálgast úr suðvestri úrkomusvæði vaxandi lægðar. Allar horfur eru á talsverðum hríðarbyl suðvestanlands, til að byrja með upp úr kl. 9 á Suðurnesjum og þjóðveginum austur fyrir fjall.

Um og fyrir hádegi versnar annars suðvestantil, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu og með hríðarbyl og skafrenningi. Vindur á bilinu 15-23 m/s. Skánar mikið síðdegis þegar lægir og á láglendi er þá einnig reiknað með vægri leysingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Færð og aðstæður

Hálka er á Hellisheiði, Sandsskeiði og í Þrengslum. Hálkublettir eru á nokkrum leiðum á Suðurnesjum.  Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka, snjóþekja og eitthvað um éljagang.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja.

Á Norðvesturlandi er hálka, snjóþekja og éljagangur. Snjóþekja og skafrenningur er á Þverárfjalli. Þungfært og skafrenningur er á Siglufjarðarvegi. Hálka og skafrenningur er á Vatnsskarði og snjóþekja og skafrenningur er Öxnadalsheiði. Beðið er með mokstur í Ólafsfjarðarmúla.

 Á Norðaustur- og Austurlandi er ófært eða þungfært á öllum leiðum og ekkert ferðaveður í Hamarsfirði.

Á Suðausturlandi er hálka og sumstaðar skafrenningur.

Siglufjarðarvegur

Vegna óvenju mikils jarðsig á Siglufjarðarvegi eru vegfarendur beðnir að gæta ýtrustu varúðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert