Sáttanefnd ekki tímabær

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Golli

„Það er alveg ljóst að ef til þess kemur að þær verkfallsaðgerðir sem boðaðar eru í upphafi næsta árs ganga eftir þá eru Íslendingar að horfa framan í allt aðra og mun alvarlegri stöðu í heilbrigðisþjónustunni heldur en verið hefur núna undanfarnar vikur allmargar og of margar.“

Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en hún ítrekaði áhyggjur sínar af stöðunni í kjaradeilu lækna og spurði ráðherrann hvort hann teldi það vænlegan möguleika í stöðunni að skipuð yrði sérstök sáttanefnd í deilunni áður en til boðaðra verkfallsaðgerða lækna kæmi með alvarlegum afleiðingum fyrir heilbrigðiskerfið og almenning í landinu.

Kristján sagðist deila áhyggjum af boðuðum verkfallsaðgerðum lækna og hversu viðræðum hafi miðað hægt. Sagðist hann ekki telja málið í hnút. „Ég er ekki þeirrar skoðunar eftir samtöl við aðila beggja vegna borðsins um að deilan sé í hnút beinlínis. Það miðar lítt til átt til lausnar, vissulega er það rétt, en það hefur verið boðaður fundur samingsaðila á morgun.“

Ráðherrann sagði að hugmyndin um sáttanefnd hefði verið rædd. Ríkisstjórnin hefði rætt málið við Ríkissáttasemjara og hann hefði sjálfur rætt um það við deiluaðila. „Það er mat þeirra sem ég hef heyrt í að það sé ekki tímabært að ganga til þessa verks. En engu að síður vil ég ekki útiloka þennan möguleika.“ Hafa yrði þó í huga að ef sú leið yrði farið væri ríkið í raun að taka yfir verkefni ríkissáttasemjara og verkefni samninganefnda deiluaðila. Um töluvert inngrip yrði þannig að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert