Skattar verði birtir nafnlaust

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn

Þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að hlutast til um að gefin verði að minnsta kosti árlega út skrá sem innihaldi sundurliðaðar og ópersónugreinanlegar upplýsingar um skattgreiðslur allra landsmanna

„Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að landsmönnum verði tryggður aðgangur að upplýsingum um álagningu og skattgreiðslur landsmanna, þó þannig að þær verði ópersónugreinanlegar. Í þessu efni takast á tvö tvö grunngildi, annars vegar réttur landsmanna til upplýsinga er varðar samfélagið og hins vegar réttur hvers og eins landsmanns til friðhelgi einkalífs. Telja verður að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum gildandi laga brjóti gegn rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs, enda eru fjárhagsmálefni einstaklinga meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi sem eðlilegt og sanngjarnt er að fari leynt,“ segir í greinargerð.

Ennfremur segir að með þingsályktunartillögunni sé ætlunin að koma til móts við bæði sjónarmið „með því að sjá til þess að á sama tíma og friðhelgi einkalífs verði betur tryggð verði aðgengilegar þær upplýsingar sem álagningarskrá hefur veitt, að öðru leyti en því að nöfn einstaklinga verði ekki lengur birt.“ Rifjað er upp að þegar ákvæði um opinbera birtingu álagningarskrá hafi verið sett í lög hafi skattaeftirlit hins opinbera verið mjög fátæklegt.

„Lausn löggjafans fólst þá í því að fela hinum almenna borgara að hafa eftirlit með skattskilum samborgara sinna. Nú sinna stofnanir þessu eftirliti og ákvæði tekjuskattslaga um birtingu álagningarskrár er því löngu orðið úrelt,“ segir áfram. Engu að síður telji Jón Þór að allar upplýsingar um skattgreiðslur fólks sem birta megi eigi að vera aðgengilegar almenningi séu þær gerðar ópersónugreinanlegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert