Umræða um reglur um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila Reykjavíkurborgar við trúar- og lífsskoðunarfélög fór fram á borgarstjórnarfundi í dag.
Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna og sagði að í umræðu um málið á netmiðlum, fjölmiðlum og víða annarsstaðar hafi sprottið upp öfgar og illt umtal. Vitnaði hann þá í umræðu um stöðuuppfærslu Lífar Magneudóttur, varaborgarfulltrúa Vinstri grænna, formanns Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar og varaformanns Skóla- og frístundaráðs þar sem hún mótmæli heimsókn skólabarna Langholtsskóla í Langholtskirkju fyrir jólin.
„Þegar að fólk eys á báða bóga úr skálum reiði sinnar og er jafnvel dónalegt skaðar það umræðuna. Manni langar varla að taka þátt lengur, það er þá búið að skemma hana,“ sagði Halldór.
Að mati hans snýst málið um reglur, hvað sé leyfilegt og hvað ekki. Hann benti á að borgarstjórn beri siðferðisleg og lagaleg skylda til þess að standa vörð um trúfrelsi og jafnframt frelsi foreldrar um hvað skal vera gert og hvað ekki.
Vitnar Halldór í orð Lífar þar sem hún segir að með kirkjuheimsóknum grunnskólabarna séu reglur sem settar voru í borgarstjórn á síðasta ári brotnar. „Í h-lið reglana kemur fram að það sem telst sem gamalgrónar hefðir eigi að halda sessi. Jólasálmar og helgi leikir falla undir þetta,“ segir Halldór og velti því fyrir sér hvaða reglur hafa verið brotnar.
„Með þessum reglum var verið að staðfesta enn frekar að samfélagið er að breytast í fjölmenningarsamfélag. En við höfum lengi haft stjórnarskrárbundið ákvæði um trúfrelsi og það er ekki ósamstaða um það.
Ég treysti ágætilega dómgreind skólastjórnenda, kennara og foreldrar til að taka ákvörðun um vettvangsheimsóknir skóla sama hvert það er,“ bætti Halldór við.
„Hlutverk skólanna er að fræða nemendur og fræðsla um samfélagið og sögu þess er hluti af því það má gera með vettvangsferðum.“
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrú VG, sagði að umræða um hvað megi og hvað megi ekki á aðventunni sé ekki aðeins komin til vegna orða Lífar. „Sú umræða er til marks um það að trú er stórkoslega persónuleg og fólki verður heitt í hamsi þegar það telur brotið á trúarréttindum sínum.“
Lagði Sóley áherslu á að þær reglur sem Halldór nefni hafi verið gerðar til þess að lægja þá ólgu sem hafði ríkt til fjölda ára í borginni með fyrirkomulagi jólaundirbúnings í skólum.
„Reglurnar voru ekki gripnar úr lausu lofti, heldur byggðar á lögum og sáttmálum og reglum sem við teljum okkur þurfa að fara eftir,“ sagði Sóley.
„Reglurnar banna ekki eins og ítrekað hefur verið komið fram sígilda söngva og leiki, ekki jólasálma og helgileiki en gera kröfur til kennara og starfsfólk þegar að þessu kemur. Heimsóknir eiga að vera undir handleiðslu kennara eða starfsfólk og eiga að vera fræðsla án trúboðs.“
Sóley bætti við að ekki túlkuðu allir þær reglur eins. „Það verður víst aldrei hægt að setja „svarthvíta“ reglu um hvað má og hvað ekki. En engu að síður getum við gert betur.“
Hún sagði jafnframt að borgarstjórn bæri að tryggja að öll börn fái menntun við hæfi. „Skólar eiga að vera uppbyggilegar stofnanir sem virða skoðanir, fjölmenningu í sinni víðustu mynd og fólk sem aðhyllist ólíkum hugmyndum um jólin sem og aðra daga og hátíðir.“
Sagði hún að þó svo að leik- og grunnskólar taki ekki þátt í trúarathöfnum og trúboðið þýðir það ekki að það sé bannað yfir höfuð. Vilji foreldar tengja börn sín við trúarstarf sé þeim frjálst að gera það. „En það á ekki að vera fyrirfram ákveðið hvort að börn taki þátt í einhverskonar trúarstarfi.“