Alþingi samþykkti í kvöld frumvarp til fjárlaga næsta árs, en þetta er eitt síðasta verk þingsins fyrir jólafrí. Fjármálaráðherra sagði í kvöld að heildarniðurstaðan væri mjög ánægjuleg, enda væri verið að samþykkja hallalaus fjárlög í annað sinn. Forsætisráðherra segir þetta „endurreisnarfjárlög“.
Fjárlögin voru samþykkt með 3,5 milljarða afgangi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í kvöld að unnið væri að áframhaldandi stöðugleika. Kaupmáttur muni halda áfram að vaxa og áfram verði unnið að því að byggja upp landið skref fyrir skref.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði að sjaldan hefði verið jafn mikil ástæða til að óska fólki til hamingju með nýsamþykkt fjárlög og nú. „Þetta eru sannkölluð endurreisnarfjárlög,“ sagði Sigmundur.
Hann bætti við að frumvarpið myndi renna stoðum undir hagvöxt og að það að samþykkja hallalaus fjárlög væri einsdæmi í Evrópu.
Sigmundur Davíð mælti jafnframt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þar kemur m.a. fram að við skipulag ráðuneyta sé m.a. hafður í huga sá möguleiki að sameina megi rekstur ráðuneyta og einstakra stjórnsýslustofnana og stjórnsýslunefnda sem heyra undir ráðuneyti.
Ýmis mál voru afgreidd í kjölfarið í kvöld en á ellefta tímanum var samþykkt að fresta fundum Alþingis til 20. janúar nk.