Efnið salicinium, sem líka gengur undir markaðsnafninu Orasal, sem hefur meðal annars verið markaðssett til krabbameinssjúklinga hér á landi er algert falslyf, að sögn Helga Sigurðssonar, prófessors og yfirlæknis krabbameinsdeildar Landspítalans. Hann segir þá sem selja lyfið hafa fólk að féþúfu með loddaraskap af verstu gerð, þeir stundi kukl eða skottulækningar sem sé refsivert athæfi.
Dæmi eru um að krabbameinssjúklingar hér á landi hafi eytt allt yfir einni milljón króna í kaup á efninu í formi Orasal og fæðubótarefnum sem eiga að styðja það til að vinna á krabbameini þeirra eins og sagt var frá hér á mbl.is í gær.
Mánaðarskammtur af Orasal kostar 500 dollara í Bandaríkjunum og varlega áætlað er það ekki undir 70 þúsundum á Íslandi. samkvæmt upplýsingum Helga. Auk þess er oft boðið upp á önnur fæðubótarefni samhliða sem eiga að styðja salicinium til að vinna betur á krabbameininu. Kostnaður getur því hæglega verið meiri en 100.000 krónur á mánuði. Helgi segir hins vegar að engar rannsóknir séu til, hvorki gerðar á frumum, dýrum né mönnum, sem styðji að salicinium hafi hamlandi áhrif á krabbamein, þvert á það sem talsmenn þess halda fram.
„Salicinum hefur verið markaðssett grimmt í Bandaríkjunum og það hefur þónokkuð borið á því hér á landi síðustu misserin. Staðhæfingar á netinu um gagnsemi salicinium, sem ganga kraftaverki næst, eru staðlausir stafir. Það er því miður samt svo að þónokkrir sjúklingar hér á landi hafa tekið þetta í góðri trú en það eru falsvonir,“ segir hann.
Þekkt hefur verið innan læknisfræðinnar í um níutíu ár að krabbameinsfrumur geti nýtt breytt efnaskipti sér í hag. Æxlisfruman getur meðal annars nýtt sér frumstæð efnaskipti þar sem gerjun sykurs er beitt við orkuöflun í stað þess að nýta sér mun hefðbundnari og skilvirkari leið sem sé bruni sykurs. Með þessu nær æxlisfruman samt vaxtarlegum yfirburðum í nærumhverfi sínu til að framleiða meðal annars sýru og lífmassa sér til framdráttar.
Helgi segir að á undanförnum 4-5 árum hafi þessi vitneskja um breytt efnaskipti komið upp á yfirborðið á nýjan leik sem möguleg meðferðarleið. Þó nokkur lyf séu í rannsóknum á þessu sviði. Það er einmitt þessi vitneskja sem talsmenn salicinium nýta sér.
Þeir sem standa á bak við salicinium segja efnið hafa áhrif á efnaskipti æxlisfruma með því að berjast gegn þessar hagnýtingu efnaskipta. Þær staðhæfingar eru hins vegar byggðar á óskhyggju, að sögn Helga. Efnið sé vissulega sykurafleiða eins og framleiðendur haldi fram en hins vegar sé það alls ekki rannsakað, þótt öðru sé haldið fram af söluaðilum.
„Sjúklingar spyrja mann: „Á ég að taka salicinium?“ Svarið er augljóst nei. Þetta er falslyf, mjög dýrt gervilyf. Þetta er fölsun á versta stigi,“ segir Helgi.
Hið sorglegasta við lyf á borð við Orasal telur Helgi vera að þar séu óábyrgir menn að nýta þekkingu á sviði læknisfræði til að búa til eða koma á framfæri efni sem byggir á fræðum sem gætu passað. Ekki sé þó nokkur stoð fyrir fullyrðingum um gagnsemi þess.
Enn verra sé að talsmen efnisins vilji sjálfir fá að meta niðurstöður úr myndgreiningum sjúklinga, eins og sonur krabbameinssjúks manns lýsti hér á mbl.is í gær. Helgi segir að jafnvel þótt öllum sé ljóst að sjúkdómur sé vaxandi þrátt fyrir meðferð með salicinium, þá sé versnandi sjúkdómur merki um bólgusvörun samkvæmt talsmönnum salicinium og það er þá túlkað af þeirra hálfu sem merki um að efnið hafi áhrif á sjúkdóminn.
Spurður að því hvort að Orasal sé þá lítið annað en hómópatalyf, en þau innihalda aðeins sykur- eða vatnslausn, segir Helgi salicinium mun verra en þau þar sem markaðssetningin sé mun óvægari.
„Það er verið að hafa fólk að féþúfu með því að beita loddaraskap af verstu gerð. Menn þykjast hafa lykilupplýsingar um það sem er nýjasta nýtt í krabbameinsfræðum og búa til „lyf“ byggt á því sem er algert falslyf,“ segir hann.
Krabbameinslæknar á Landspítalanum ræddu um salicinium á fundi í fyrra og hugleiddu að kæra sölu þess hér á landi til embættis landslæknis. Sjálfur hefur Helgi kynnt sér efnið þónokkuð.
„Við höfum vafalaust sýnt þessu of mikið umburðarlyndi. Klárlega þarf að taka harðar á þessu,“ segir hann og bætir við að hann muni taka málið upp við nýjan landlækni.
Sölumaður efnisins hér á landi setti sig meðal annars í samband við Helga til að hjálpa sér við að meta rannsóknir og gögn um salicinium. Helgi segist hafa tjáð honum að engin gagnreynd gögn eða rannsóknir væru til um gagnsemi þess. Fullyrðingar um annað væru staðlausar.
Afar algengt er þeir sem stunda óhefðbundnar meðferðir hafi beint samband við sjúklinga, að sögn Helga. Hann segir að samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu frá árinu 2002 þá stundi álíka margir óhefðbundnar meðferðir og raunverulegar lækningar á Íslandi, um 1.200 manns.
„Það er svo ótrúlegt að mörgu af þessu fólki finnst alveg sjálfsagt að hringja til sjúklinga eða leita til þeirra beint. Það er þá oftast í gegnum sameiginlegan vin eða ættingja sem þekkir viðkomandi og telur sig vera að gera eitthvað jákvætt með þessu. Þetta fólk setur sig í samband og er þá að bjóða upp á óhefðbundin úrræði. Þetta er í raun verulegt vandamál vegna þess að sumir sem lenda í þessu finnst þetta beinlínis óþægilegt og aðrir glepjast. Það er líka merkilega oft þrýstingur frá umhverfinu að fólk taki óhefðbundin efni,“ segir Helgi.
Þetta eigi ekki aðeins við um salicinium heldur ýmsar óhefðbundnar meðferðir eins og lúpínuseyði svo eitthvað sé nefnt. Það sé breytilegt frá einum tíma til annars hvaða meðferðir séu í tísku.
„Þetta gerir ekki gagn. Þetta eru efni og aðferðir sem hafa ekki verið rannsakaðar þó öðru sé haldið fram. Þetta eru í raun hókuspókuslausnir og snákaolía sem er verið að bjóða upp á eða ígildi hennar,“ segir Helgi.
Fyrri frétt mbl.is: Féfletti krabbameinssjúkling