Minni stuðningur við náttúrupassa

Strokkur í Haukadal
Strokkur í Haukadal mbl.is/Ómar Óskarsson

31% Íslendinga styðja upptöku náttúrupassa en 47% eru henni andvíg. Í apríl var þessu öfugt farið, þá studdu 47% upptöku náttúrupassa, en 31% voru henni andvíg. Eldra fólk og fólk á landsbyggðinni er hlynntara náttúrupassa en þeir sem yngri eru eða búa á höfuðborgarsvæðinu. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru líklegri til að vera hlynntir náttúrupassa en þeir sem styðja hana ekki.

MMR kannaði á dögunum afstöðu almennings til þess að ferðamönnum (íslenskum sem erlendum) verði gert að kaupa „náttúrupassa" til að öðlast aðgengi að helstu ferðamannastöðum á Íslandi. Þetta kemur fram á síðu MMR.

Þeim fækkaði nokkuð sem sögðust vera fylgjandi náttúrupassa frá því að spurningin var síðast lögð fyrir í apríl 2014. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 31,2% þeirra sem tóku afstöðu vera fylgjandi náttúrupassa, borið saman við 47,2% í apríl 2014.

Munur á afstöðu eftir aldri, búsetu og stjórnmálaskoðunum

Þeir sem tilheyrðu elsta aldurshópnum voru líklegri til að vera hlynntir náttúrupassa en þeir sem yngri eru. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) sögðust 36,9% vera fylgjandi náttúrupassa, borið saman við 25,6% þeirra sem tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára).

Þeir sem voru búsettir á landsbyggðinni voru frekar hlynntir náttúrupassa en þeir sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu. Þannig sögðust 35,9% á landsbyggðinni vera fylgjandi náttúrupassa, borið saman við 28,3% þeirra sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu.

Nokkur munur var á afstöðu til náttúrupassa eftir stjórnmálaskoðunum. Þannig voru þeir sem studdu ríkisstjórnina frekar hlynntir náttúrupassa en þeir ekki studdu ríkisstjórnina. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu ríkisstjórnina sögðust 45,6% vera fylgjandi náttúrupassa, borið saman við 22,4% þeirra sem ekki studdu ríkisstjórnina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert