„Við erum alltaf vel stemmd fyrir fundi þannig séð. Sáttasemjari hefur álitið það ástæðu til að boða til fundar sem er almennt jákvætt,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands. Boðað hefur verið til fundar í deilunni í dag klukkan 16 í húsi ríkissáttasemjara.
Síðasti fundur fór fram á mánudaginn í síðustu viku, en alls hafa verið haldnir um þrjátíu fundir í deilunni.
„Við höfum verið að skoða fleti á því sem áður hefur verið rætt og sjá hvort við komumst eitthvað áfram með það. En það er of snemmt að segja til um það fyrr en eftir fundinn hvað kemur út úr því öllu saman,“ segir Þorbjörn um stöðu mála.
Atkvæðagreiðslu LÍ um verkfallsboðun lækna fyrstu þrjá mánuði ársins 2015 lauk fyrir rúmri viku síðan, en um 98% þeirra sem kusu samþykktu fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir. Gert er ráð fyrir að þær hefjist þann 5. janúar næstkomandi ef samningar hafa ekki náðst fyrir þann tíma.