Ríkisstjórnin var sökuð um árásir á menningu í landinu og fjölmiðla á Alþingi í dag í ræðu sem Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, flutti. Sagði hann hærri virðisaukaskatt á bækur og lægri framlög í menningarsjóði vera tilræði við menninguna.
„En öllu alvarlegra er þó það viðhorf sem birtist í stanslausum árásum á fjölmiðla og fjölmiðlamenn þar sem þeir eru hundeltir fyrir það að segja fréttir, sérstaklega ef það eru fréttir af ríkisstjórninni,“ sagði Steingrímur. Sakaði hann fjölmiðlafulltrúa ríkisstjórnarinnar um að reyna að stýra umfjöllun fjölmiðla um Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og ríkisstjórnina. Ekki þyrfti síðan að fjölyrða um „aðför“ stjórnvalda að Ríkisútvarpinu.
„Staðreyndin er sú að það eru áratugir síðan svona viðhorf hafa sést í umræðu á Íslandi. Að menn bara beinlínis ætli að kúska fjölmiðla til hlýðni, berja þá niður með fjárhagssvipu eða með því að vera með menn á launum við það að reyna að koma í veg fyrir að það séu fluttar hlutlægar fréttir af ríkisstjórninni sem vissulega eru ekki allar góðar enda ekki efni til.“