Fimmtungur skólabarna utan kirkjunnar

Súluritið sýnir þróun skráninga barna á aldrinum 6-15 ára.
Súluritið sýnir þróun skráninga barna á aldrinum 6-15 ára. mbl.is/Eoghan Pio O´Reilly

Börnum á grunnskólaaldri sem skráð eru í þjóðkirkjuna hefur fækkað um tæp 14% á undanförnum tíu árum. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands er nú um fimmta hvert barn sem stundar grunnskólanám skráð í önnur trú- og lífsskoðunarfélög en þjóðkirkjuna eða stendur alfarið utan þeirra.

Árið 2005 voru 87,7% barna á aldrinum 6-15 ára skráð í þjóðkirkjuna. Síðan þá hefur þetta hlutfall hins vegar lækkað jafnt og þétt. Nemur lækkunin um einu prósentustigi á hverju ári undanfarin tíu ár.

Hlutfall barna á grunnskólaaldri sem voru skráð í ríkiskirkjuna 1. janúar á þessu ári var þannig 78,3%, rúmum níu prósentustigum lægra en var 1. janúar 2005. Nú eru því 21,7% grunnskólabarna ekki í þjóðkirkjunni, rúmlega fimmta hvert barn. Hlutfall þeirra er nú rúmlega níu prósentustigum hærra en fyrir tíu árum þegar það var 12,2%.

Þessi 21,7% sem standa utan þjóðkirkjunnar eru þau börn sem hafa verið skráð í öll önnur trú- og lífsskoðunarfélög, þar á meðal aðra kristna söfnuði, og utan slíkra félaga.

Þegar litið er til fjölda barnanna eru nú um sex þúsund færri grunnskólabörn skráð í þjóðkirkjuna en árið 2005. Þess ber þó að geta að börn á grunnskólaaldri voru um tvö þúsund færri 1. janúar í ár en fyrir tíu árum. Nú standa 9.379 börn á aldrinum 6-15 ára utan þjóðkirkjunnar, rúmlega fjögur þúsund fleiri en árið 2005. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka