Verð á ferskum fiski hefur hækkað í ár og vel hefur gengið að selja þessar afurðir.
Vaxandi hluti er fluttur út ferskur og þorskflök og bitar hafa átt vinsældum að fagna í Frakklandi, sem er stærsti markaðurinn fyrir ferskar afurðir. Útlitið er talið gott fyrir næsta ár, að því er fram kemur í umfjöllun um fisksöluna í Morgunblaðinu í dag.
Guðmundur Jónasson, deildarstjóri ferskfiskdeildar Iceland Seafood, Tros, segir að í haust hafi verðhækkun fyrir ferska hnakka inn á Frakklandsmarkað verið í kringum 15%. Íslendingar séu stærstir á Frakklandsmarkaði í ferskum þorskhnökkum og hafi aukið magnið úr um fjögur þúsund tonnum 2011 í um níu þúsund tonn í fyrra.