Jónína Benediktsdóttir var beitt harðræði þegar hún var handtekin vegna gruns um ölvunarakstur í nóvember í fyrra. Hún var vistuð í fangaklefa þar sem hún var látin dúsa í ellefu klukkustundir án matar og þá loks var tekin af henni skýrsla. Þetta sagði verjandi hennar fyrir Hæstarétti í morgun.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Jónínu í þrjátíu daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og svipti hana ökurétti ævilangt með dómi sem kveðinn var upp 27. janúar síðastliðinn. Jónína sem hafði lýst sig saklausa af sakargiftum taldi sig ekki geta unað dómnum og áfrýjaði honum til Hæstaréttar. Fyrir réttinum í morgun lýsti verjandi Hildur Sólveig Pétursdóttir, verjandi Jónínu, því yfir að hún krefðist sýknu.
Jónína er ákærð fyrir að hafa ölvuð ekið bifreið úr bifreiðastæði við Reykjavíkurflugvöll við Þorragötu í Reykjavík uns bifreiðinni var ekið utan í járngrind við enda bifreiðastæðisins. Er óumdeilt í málinu að eftir að hún ók á járngrindina fékk hún vin sinn sem var með henni í bifreiðinni til að taka við akstrinum og sat hann undir stýri þegar lögregla stöðvaði aksturinn á Suðurgötu skömmu síðar.
Hildur Sólveig benti meðal annars á að allt frá því í skýrslutökunni hjá lögreglunni hefði Jónína neitað að hafa ekið undir áhrifum áfengis og skýrt svo frá að hún hefði sturtað í sig vodka og drukkið rauðvín eftir að vinur hennar tók við akstrinum. Framburður hennar hefði verið stöðugur nema um tvö atriði sem hún mundi ekki í skýrslutökunni. Það kunni hins vegar að skýrast af „óeðlilega harkalegri meðferð“ sem hún fékk hjá lögreglunni.
Þessi tvö atriði eru hvort hún hafi ekið á skiltið þegar hún keyrði að flugstöðinni eða frá henni og hvort hún hefði drukkið áfengi inni í flugstöðinni. Þessi tvö atriði hafi hins vegar rifjast upp þegar hún var laus úr prísundinni og sagði Hildur Sólveig það geta verið mikið áfall að vera vistaður í fangaklefa og hvað þá þurfa að vera þar í ellefu klukkustundir, án matar.
Hún sagði að Jónína hefði ekki drukkið áfengi inni í flugstöðinni og það sjáist greinilega á upptökum úr öryggismyndavélum.
Þá mótmælti Hildur Sólveig því að byggt væri á framburði vinar Jónínu sem var með henni í bílnum, en fyrir héraðsdómi sagðist hann ekki muna til þess að Jónína hefði drukkið áfengi í bílnum og kannaðist ekki við að vodkapeli hefði verið í bifreiðinni. Hildur Sólveig sagði að framburður mannsins hefði verið mjög reikull og mætti rekja það til þess að hann sé illa haldinn af Alzheimers-sjúkdómnum. Vísaði hún til þess að fljótlega eftir atvik máls hefði hann verið sviptur fjárráðum vegna sjúkdómsins.
Hildur Sólveig nefndi að í skýrslutöku hjá lögreglu hefði maðurinn í sjö skipti ekki getað svarað spurningum þar sem hann mundi ekki atvik. Þá hefði hann hins vegar ekki verið spurður að því hvort áfengi hefði verið í bílnum. Sjö mánuðum síðar, fyrir dómi, hafi hann hins vegar verið spurður að því í fyrsta skipti. Ekki sé hægt að byggja á framburði hans vegna minnisglapa.
Hildur Sólveig sagði að eftir stæði aðeins eitt vitni, maður sem var að bíða eftir flugi í farþegasal flugstöðvarinnar umræddan dag. Fyrir dómi sagðist hann þá hafa séð áberandi drukkna konu vafra inn á flugstöðina og kaupa sér bjór í veitingaafgreiðslunni. Hefði hann síðan séð að konan settist inn í bifreið fyrir utan og ók henni á varnarstaur á bifreiðastæðinu. Hefði konan farið út og skoðað skemmdir á bifreiðinni. Aldraður maður sem var með henni í bifreiðinni hefði síðan tekið við akstri bifreiðarinnar, en konan sest í farþegasæti. Kvaðst hann hafa hringt til lögreglu og tilkynnt um atvikið, enda hefði hann ekki heldur verið viss um ástand mannsins.
Hún sagði manninn engin samskipti hafa átt við Jónínu, hann hafi ekki séð hana drekka áfengi og af upptökum úr öryggismyndavélum megi ráða að hún hafi verið í tvær og hálfa mínútu inni í flugstöðinni. „Hún nær að versla á þessum tíma og hefur því varla verið að vafra um flugstöðina áberandi ölvuð.“
Einnig standist það ekki í framburði mannsins að Jónína hafi keypt bjór. Upphæðin á greiðslukortakvittun samræmist því að Jónína hafi keypt sjö litlar rauðvínsflöskur, á rúmar tíu þúsund krónur, en ekki bjórkippu eins og maðurinn hélt fram.
Önnur vitni hafi neitað því að nokkuð í fari Jónínu hafi vakið athygli og þau hefðu örugglega tekið eftir því ef Jónína hefði verið áberandi ölvuð. Því standist hreinlega ekkert í framburði mannsins.
Hildur Sólveig sagði enga sönnun liggja fyrir um það hvenær Jónína hóf drykkju. Engin leit hafi verið gerð í bílnum að áfenginu sem hún keypti og ekki hafi verið rætt við afgreiðslufólk í flugstöðinni. Rannsókn lögreglu sé því verulega ábótavant og gegn neitun Jónínu sé ekki hægt að sakfella hana fyrir ölvunarakstur. Ekkert hnekki orðum hennar um að hún hafi hafið drykkju eftir að hún settist í farþegasæti bifreiðarinnar.
Vísaði Hildur Sólveig meðal annars til framburðar deildarstjóra Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði en í honum kom fram að ekki væri óhugsandi að Jónína hefði hafið drykkju á þeim tíma sem hún heldur fram. Einnig að útreikningar hefðu verið nákvæmari ef tekið hefði verið þvagsýni auk tveggja blóðsýna.
Sökum alls þessa eigi því að sýkna Jónínu af ákæru um ölvunarakstur.
Stefanía G. Sæmundsdóttir, settur saksóknari hjá ríkissaksóknara, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins. Hún gerði þær kröfur að dómur héraðsdóms verði staðfestur og Jónínu gert að greiða áfrýjunarkostnað. Sagði hún að niðurstaða héraðsdóms væri vel rökstudd og sakfelling byggð á nægilega sterkum grunni.
Í málinu sé óumdeilt að Jónína var undir áhrifum þegar lögregla hafði afskipti af henni, í kjölfar þess að tilkynnt var um hugsanlega ölvaðan ökumann sem ekið hafði á járngrind og skipt þá um sæti við farþega í bílnum. Jónína hafi sjálf játað fyrir dómi að hafa ekið bifreiðinni úr bifreiðastæðinu og utan í járngrindina.
Sagði hún að framburður Jónínu hefði verið óstöðugur og breyst bæði í skýrslutöku hjá lögreglu og ef miðað er við þá skýrslutöku og það sem hún sagði fyrir dómi. Meðal annars hafi Jónína sagst hafa drukkið áfengi í flugstöðinni en horfið frá þeim framburði og einnig hafi verið misvísandi framburður varðandi það hver keyrði á járngrindina.
Þá hafi hún ekki getað munað það við skýrslutöku hjá lögreglu hversu mikið áfengi hún keypti á flugstöðinni né hversu mikið hún hefði verið búin að drekka.
Fyrir dómi hafi Jónína sagt að hún hefði drukkið vodka eftir að hún skipti við vin sinn um sæti og drukkið það hratt. Sagðist hún hafa sturtað í sig alla vega hálfum vodkapela og súpið á rauðvíni með. Það geti hins vegar vart staðist því aðeins hafi liðið örfáar mínútur frá því bifreiðinni var ekið frá flugstöðinni og þangað til lögreglumenn stöðvuðu aksturinn. Lögreglumenn báru um að þá hefði Jónina verið áberandi ölvuð.
Frétt mbl.is: Jónína dæmd í 30 daga fangelsi