Foreldrarnir oftast að reyna sitt besta

Nemendur þriðja bekkjar Langholtsskóla sýndu helgileik í Langholtskirkju í morgun. …
Nemendur þriðja bekkjar Langholtsskóla sýndu helgileik í Langholtskirkju í morgun. Myndin er úr safni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ástæðan fyrir því að margir koma í kirkju á aðventunni er sú að þá heldur kristið fólk upp á fæðingu Jesú. Sagt er að hann hafi fæðst í litlum bæ sem heitir Betlehem og hafi verið lagður í jötu, litla skinnið, því foreldrar hans fengu ekki pláss á gistiheimili þegar kom að fæðingunni. 

Þetta sagði Jóhanna Gísladóttir, æskulýðsfulltrúi Langholtskirkju, þegar hún bauð nemendur Langholtsskóla sem heimsóttu kirkjuna í morgun velkomna. „Er einhver hér inni sem fæddist í fjárhúsi,“ spurði hún einnig. Í upphafi stundarinnar voru ljós aðventukransins tendruð og útskýrði Jóhanna nöfn kertanna og flutti hún því næst hugvekju. 

Mikið hefur verið rætt um heimsóknir skólabarna í kirkjur á aðventunni. Líf Magneudóttir vakti meðal annars athygli á fyrirhugaðri heimsókn nemenda í  Langholtskirkju og ræddi mbl.is við Líf og skólastjóra Langholtskirkju vegna málsins. Sagði hún meðal annars að hugvekjan sem flutt yrði á stundinni væri skýrt brot á reglum. 

mbl.is ræddi við Jóhönnu vegna stundarinnar í morgun og birtir hér að neðan hugvekjuna sem flutt var auk dagskrár stundarinnar sem sett er saman af starfsfólki Langholtsskóla. 

Hugvekja æskulýðsfulltrúa Langholtskirkju

Ég ætla að segja ykkur jólasögu sem var alltaf sögð heima hjá mér í aðdraganda jólanna og ég veit fyrir víst að er algerlega dagsönn.

Það hefur verið um 1960, fyrir svona 50 árum síðan, að það var fjölmennur systkinahópur sem bjó á litlum sveitabæ norður í landi. Börnin höfðu beðið þolinmóð alla aðventuna eftir föður sínum sem var við vinnu í öðrum landshluta. Móðirin var langveik og fátæktin mikil. Á Þorláksmessukvöldi fór vonin þverrandi um að faðirinn myndi skila sér heim sem og jólamaturinn sem átti að fylgja honum.

Þótt eldri börnin reyndu að stappa stálinu í þau yngri fyrir svefninn þá nagaði efinn þau líka. Hvað áttu þau að gera ef pabbi kæmi ekki daginn eftir? Hvað yrði þá eiginlega um jólin?

Þegar börnin vöknuðu daginn eftir, á aðfangadagsmorgun, hlupu þau strax út í kuldann í von um að sjá glitta í pabba gamla við sjóndeildarhringinn en ekki sáust nein ummerki um mannaferðir við veginn. Það var allt á kafi í snjó, miklu meira en er í Reykjavík núna, og þeim fannst augljóst þegar þau litu til himins að óveður var í aðsigi. Litlu börnin fengu tár í augun, þau voru svo vonsvikin. En bíðið við.....hvað haldið þið að systkinin hafi rekið augun í út við póstkassa?

Jú, við þeim blasti stór og mikill pappakassi og hann var svo þungur að þau urðu að hjálpast að við að bera hann að húsinu. Þegar inn var komið uppgötvuðu þau sér til mikillar gleði að kassinn var fullur af miklu magni matar. Í honum var kjöt, epli og appelsínur ( sem börnin höfðu ekki smakkað síðan jólin árið áður), súkkulaði, döðlur og ýmsu öðru góðgæti sem börnin höfðu aldrei séð fyrr. Enginn miði fylgdi kassanum en innihald hans gladdi annars döpur og svöng börn mikið og í það minnsta fóru allir saddir í háttinn á jólanótt.

Til að setja botninn í söguna, sem varð lengri og dramatískari með hverju árinu sem hún var sögð heima hjá mér, get ég sagt ykkur að faðirinn skilaði sér ekki heim fyrr en á öðrum degi jóla, veðrið hafði tafið hann og enginn var síminn á sveitabænum. Við kassann kannaðist hann ekki né nokkur annar úr sveitinni.

Börnin uxu úr grasi en þau gleymdu aldrei kassanum góða sem einhver hafði gert sér far um að færa fátækum börnum á jólum. Það var í raun ekki fyrr en þau voru orðin fullorðin er þau komust að því að gefandinn var nágranni sem hafði alla tíð neitað fyrir að hafa tengjast gjöfinni á nokkurn hátt. Gamli kallinn hafði heldur ekki þótt líklegur þar sem honum þótti þessi systkinahópur almennt gjörsamlega óþolandi og var ekkert að fela þá skoðun fyrir neinum. En svo hafði gamli fyllst óvæntri samúð og gefið eigin jólamat frá sér í skjóli nætur þegar hann grunaði að pabbi barnanna hefði ekki skilað sér heim.

Þegar ég var hlustaði á þessa sögu sem barn þá vorkenndi ég alltaf svo svakalega litlu börnunum sem höfðu áhyggjur af pabba sínum. En nú þegar ég er sjálf orðin mamma þá kemur aumingja pabbinn mér fyrst til hugar sem átti sér örugglega þá ósk heitasta að komast heim til barnanna sinna um jólin. Og það er eitt merkilegt með þetta fullorðna fólk í fjölskyldunni ykkar, pabba og mömmur og afa og ömmur, sem geta öll verið svo ólík, að þau eiga það samt öll sameiginlegt að vilja ekkert frekar en að börnin sín eigi góð jól. Stundum tekst það vel og stundum kannski ekki alveg eins vel því við stjórnum ekki alveg öll sjálf í þessum heimi.

En það er gott að hafa það í huga næst þegar þið verðið pirruð út í mömmu og pabba að þau eru oftast að reyna sitt allra allra besta.

Þannig að nú ætla ég að koma með smá aðventu-áskorun. Hvað segið þið um að við sameinust öll um að gera eitt góðverk heima fyrir áður en við förum að sofa í kvöld? Það þarf ekki að vera risastórt eða taka langan tíma, það getur verið til dæmis að fara úr með ruslið, ganga frá eftir kvöldmatinn eða gefa gamla fólkinu óvænt gott faðmlag og koss á kinn.

„Hvað segið þið um það, eigum við að reyna,“ spurði Jóhanna að lokum. „Fyrir hönd okkar í Langholtskirkju þá óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla! Ég vona að þið hafið það sem allra best í jólafríinu ykkar og hlakka til að hitta ykkur hérna á sama tíma að ári.“

Jóhanna Gísladóttir, æskulýðsfulltrúi Langholtskirkju, sagði börnunum frá nöfnum kertanna á …
Jóhanna Gísladóttir, æskulýðsfulltrúi Langholtskirkju, sagði börnunum frá nöfnum kertanna á aðventukransinum. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert