Kúbanska þjóðin fagnar öll stjórnmálasambandi

„Ef Obama mun standa við það að draga úr viðskiptaþvingunum þá mun það hafa mjög jákvæð áhrif á hagsæld á Kúbu. Þetta eru frábærar fréttir fyrir kúbönsku þjóðina,“ segir hinn 36 ára gamli Manuel Plasencia Gutierrez, kjarnorkuverkfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands, í tilefni af tilkynningu Baracks Obama Bandaríkjaforseta og Rauls Castro, forseta Kúbu, um stjórnmálasamband.

Obama tilkynnti einnig að hann myndi beita sér fyrir því að draga úr viðskiptaþvingunum gagnvart Kúbu á bandaríska þinginu. „Löndin eru landfræðilega mjög nálægt hvort öðru. Fjöldi fyrirtækja hefur áhuga á því að fjárfesta á Kúbu. Á sama tíma þarf kúbanska þjóðina á því að halda að byggðir verði upp innviðir samfélagsins. Til að mynda er ekkert netsamband fyrir almenning. Því þurfum við virkilega á því að halda að fá meiri viðskipti inn í landið. Þannig mun Kúba opnast og efnahagurinn vænkast smám saman,“ segir Manuel.

Hann segir þó að ekkert sé í hendi enn. „Deilan hefur staðið yfir í meira en 50 ár og það eru margir í Bandaríkjunum sem eru mjög andvígir afléttingu viðskiptaþvingana. Því þurfum við að bíða og sjá hvað muni gerast,“ segir Manuel.

Hann segir að núverandi stjórnvöld á Kúbu hafi gefið almenningi meira athafnafrelsi en var í tíð Fidels Castro. Fólk megi nú t.d. eiga farsíma auk þess sem ferðahömlum á þá sem vildu ferðast utan landsteina eyjunnar hafi verið aflétt. Aðspurður segir hann enga andstöðu á Kúbu við þennan ráðahag. „Kúbanska þjóðin er bláfátæk og því fagna þessu allir,“ segir Manuel.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert