Samtökin Raddir íslenskra lækna hafa sent frá sér upplýsingar um kjör íslenskra lækna. Með því vilja samtökin veita fólki svör við algengum spurningum um kjör þeirra, og þróun á undanförnum árum.
Eru gögnin unnin án aðkomu Læknafélags Íslands og samninganefndar félagsins, eftir því sem kemur fram í skýrslunni. Einnig er að finna í skýrslunni útskýringar á vaktafyrirkomulagi lækna en fyrirkomulagið gerir það að verkum að heildarlaun lækna geta verið ansi flókin. Hún er í flestum tilvikum unnin til viðbótar við dagvinnu.
„Læknar eru því ekki vaktavinnufólk í almennum skilningi og bera skyldu til að taka vaktir skv. kjarasamning. Undanþegnir eru læknar eldri en 55 ára,“ segir í skýrslunni.
Með fréttinni fylgja launatöflur lækna, og skrá yfir vaktavinnutaxta kandídata, deildarlækna og sérfræðinga.
Í skýrslunni segir:
Vaktafjöldi lækna er misjafn þar sem læknar vinna við mismunandi aðstæður, allt frá því að vera á samfelldri bakvakt ("gæsluvakt 1 og 2" í kjarasamning) úti á landi til þess að vinna á rannsóknarstofu þar sem ekki er þörf á vaktþjónustu. Með síversnandi mönnun dreifast vaktir á færri hóp lækna og margir læknar bera því meiri vaktabyrði en þeir kæra sig um.
Vaxandi fjölda lækna >55 ára og sífellt verri endurnýjun ungra sérfræðinga er að skapa svarthol sem ekki er fyrirsjáanlegt hvernig verður leyst. Augljóslega getur þessi þróun ekki haldið áfram öðruvísi en að færri læknar hlaupi hraðar og vinni meira. Í því liggur meginástæða verkfalls læknastéttarinnar.
Sjá Spurt og svarað frá Röddum íslenskra lækna