Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll á síðasta ári í meiðyrðamáli sem Egill Einarsson höfðaði gegn Sunnu Ben Guðrúnardóttur vegna ummæla sem hún lét falla á Facebook. Ummælin fóru út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar með því að drótta Agli um refsivert athæfi og voru þau dæmd dauð og ómerk.
Sunnu er aftur á móti ekki gert að greiða Agli miskabætur.
Ummælin sem Sunna viðhafði voru: „Þetta er líka ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku ... Það má allveg gagnrýna það að nauðgarar prýði forsíður fjölrita sem er dreyft út um allan bæ ...“
Einn dómari skilaði sératkvæði og vildi hann dæma Sunnu til að greiða Agli 200.000 kr. í miskabætur.
Egill höfðaði mál á hendur Sunnu vegna ummæla hennar á samskiptamiðlinum Facebook. Egill krafðist þess að Sunna yrði dæmd til refsingar vegna ummælanna svo og að þau yrðu dæmd dauð og ómerk. Þá krafðist hann miskabóta úr hendi Sunnu og kostnaðar af birtingu dóms í málinu.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að Egill nyti þeirrar persónuverndar sem lög stæðu til hvort sem hann kæmi undir eigin nafni eða öðrum tilbúnum nöfnum, en að hann yrði að sama skapi að axla ábyrgð á því efni sem hann léti frá sér fara. Áður en hin ætluðu ærumeiðandi ummæli voru viðhöfð hefði Egill sjálfur hrundið af stað þjóðfélagsumræðu og því hefði Sunna notið rýmkaðs frelsis til að tjá sig um Egil og skoðanir hans.
Á hinn bóginn hefði Sunn með ummælum sínum sakað Egil um nauðgun, sem samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga varðaði allt að 16 ára fangelsi. Ummælin hefðu þannig ekki falið í sér gildisdóm heldur staðhæfingu um að Egill hefði framið refsiverðan verknað.
Þar sem umræddar sakir væru ósannaðar og Sunna verið meðvituð um það hefðu ummælin falið í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð hans í merkingu 235. gr. almennra hegningarlaga.
Hins vegar var ekki talið sannað að Sunna hefði haft aðdróttun í frammi gegn betri vitund samkvæmt 1. mgr. 236. gr. sömu laga. Var refsikröfu E hafnað svo og kröfu hans um miskabætur og greiðslu kostnaðar við birtingu dóms í málinu í dagblaði.