Hæstiréttur hefur sýknað listamanninn Kristinn E. Hrafnsson af kröfum listamannsins Ásmundar Ásmundssonar. Ásmundur krafðist þess að ummæli sem Kristinn lét falla í ritdeilu þeirra í Morgunblaðinu yrðu dæmd dauð og ómerk og að hann yrði dæmdur til refsingar vegna þeirra.
Hæstiréttur hefur þar með staðfest dóm Héraðdóms Reykjavíkur sem féll í desember í fyrra.
Ásmundur höfðaði málið vegna ummæla Kristins í blaðagrein þar sem fram kom meðal annars að Ásmundur væri þekktastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra.
Auk þess að krefjast þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk þá krafðist hann miskabóta úr hendi Kristins og fjárhæðar til að standa straum af birtingu dómsins í dagblaði.
Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að blaðagrein Kristins var liður í ritdeilu vegna nýráðins rektors Listaháskóla Íslands, en Kristinn hafði gagnrýnt ráðninguna á opinberum vettvangi og Ásmundur svarað þeirri gagnrýni með blaðagrein af sinni hálfu. Kristinn tjáði sig í kjölfarið um grein Ásmundar og höfðu hin umdeildu ummæli verið viðhöfð í þeirri grein.
Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var vísað til þess að grein Ásamundar sjálfs hefði verið hvassyrt og að hann hefði í ljósi hennar mátt eiga von á viðlíka viðbrögðum frá Kristni. Tjáningarfrelsið væri rýmra þegar svo háttaði til en þegar ummæli væru viðhöfð án nokkurrar forsögu eða tilefnis af hálfu þess sem þau beindust að. Leggja yrði til grundvallar að fyrrgreind ummæli Kristins hefðu beinst að umdeildu verki Ásmundar sem sýnt hefði verið á sýningu í Nýlistasafninu, en umrætt verk hefði verið fjarlægt úr sýningarrými safnsins þar sem margir hefðu talið það brjóta gegn sæmdarrétti höfunda annars verks.
Kristinn hefði með ummælum sínum lýst afstöðu sinni til þessa umdeilda verks og yrði að játa honum heimild til að láta þá afstöðu í ljós. Þá yrði að telja að listamenn, sem kysu að sýna verk sín opinberlega og taka þátt í opinberri umræðu á sínu fagsviði, yrðu að þola að um þá væri fjallað með opinskárri og gagnrýnni hætti en annars.
Var því ekki talið að Kristinn hefði farið út fyrir mörk leyfilegs tjáningarfrelsis og hann sýknaður af kröfum Ásmundar.
Þá er Ásmundur dæmdur til að greiða Kristni 430.000 kr. í málskostnað.