Heildarlaun segja ekki alla söguna

Læknar að störfum.
Læknar að störfum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ekki er hægt að horfa á heildarlaun lækna án þess að ræða þar með vinnuálag o.s.frv. Þannig hafa heildarlaun lækna ekki haldið í við nein viðmið í landinu þrátt fyrir aukna vinnu og vaktaálag.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá hópnum Raddir íslenskra lækna en um er að ræða viðbrögð við upplýsingum sem fjármálaráðuneytið birti í morgun um meðallaun lækna sem starfa fyrir ríkið miðað við heildarlaun þeirra. Þar kom meðal annars fram að meðallaun lækna, fyrir utan skurðlækna, væru rúm 1,1 milljón króna. Ennfremur kemur fram að mánaðarlaun standi einungis undir 45% heildarlauna hjá kandídötum og deildarlæknum og um 62-64% af heildarlaunum sérfræðinga og yfirlækna. 

„Með mjög einföldum reikningi má finna út að til þess að ná þessum tölum fyrir kandídata og almenna lækna þurfa þeir að vinna 100% starf og síðan 85-97 vaktatíma í mánuði. Fjármálaráðherra birtir það í smáa letrinu: "Tekið skal fram að hér eru meðtalin öll laun lækna; dagvinnulaun, yfirvinnulaun, vaktaálag, stjórnunarálag, helgunarálag, menntunarálag o.fl."“ segir ennfremur.

Fyrir sérfræðinga og yfirlækna sé mjög mismunandi hversu marga klukkutíma þeir þurfi á vakt enda mismunandi hvort þeir séu með helgunarálag, menntunarálag o.s.frv. „Lægstu vaktagreiðslur til sérfræðinga eru 752 krónur á klukkustund (gæsluvakt II) og hæstu 6.076 krónur á klukkustund (fyrir bindingu á stofnun). Til dæmis má nefna gæsluvakt þar sem reiknað er með að þú sért í útkalli 50% af tímanum eru greiddar 3.645 krónur á klukkustund og ekki aukalega fyrir útköll, hvert sem tilefnið er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert