Nokkrir nemendur í Verslunarskóla Íslands urðu uppvísir að því að hafa svindlað á prófum en þeir komust yfir lykilorð sem veitti þeim aðgang að tölvukerfi skólans. Skólastjóri Verslunarskólans svona mál hafi ekki komið upp áður. Það sé litið alvarlegum augum og nemendunum verði refsað.
Próftímabilið í Verslunarskólanum stóð frá 1. til 14. desember. Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskóla Íslands, segir að um „örfáa einstaklinga“ sé að ræða. Málið komst upp við yfirferð á prófum þegar kennarar urðu varir við að ekki væri allt með felldu. „Þá fórum við að rannsaka málið og þá komumst við að ýmsu.“
Aðspurður segir Ingi að nemendurnir hafi með einhverjum hætti komist yfir lykilorð sem veitti þeim aðgang að tölvukerfi skólans. „Svona hlutir hafa gerst - þetta hefur hins vegar aldrei gerst hjá okkur áður. Menn þurfa að reyna að sporna við því að þetta gerist aftur,“ segir Ingi í samtali við mbl.is.
Spurður til hvaða aðgerða verði gripið segir Ingi að það sé allt frá því að ógilda próf yfir í að vísa nemendum úr skóla. Hann segir að endanleg niðurstaða í málinu liggi ekki fyrir að svo stöddu.
„Þá á eftir að ræða þetta mál á skólanefndarfundi líka og taka þetta formlega fyrir,“ segir Ingi að lokum.