Sjúklingar hikandi

mbl.is/Ómar

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að svo virðist sem að sumir sjúklingar hiki við að leita til starfsmanna sjúkrahússins og séu að bíða eftir því að verkfallsaðgerðum heilbrigðisstarfsmanna ljúki. Hann segir afar mikilvægt að fólk komi ef það telji sig þurfa á þjónustu að halda.

Þetta segir Páll í pistli sem hann birtir á vef Landspítalans í dag. 

„Mörg klínísk svið hafa fundið fyrir áhrifum verkfallsins bæði verkfallsdagana en ekki síður dagana á eftir. Svo virðist sem sumir sjúklingar hiki við að leita til okkar þar til verkfallsaðgerðum lýkur. Afar mikilvægt er hins vegar að fólk komi til okkar þegar það telur sig í þörf fyrir þjónustuna enda sinnir spítalinn bráðatilfellum. Þrátt fyrir þunga verkfallsdaga þá hefur gengið ágætlega að halda uppi bráðaþjónustu, þó svo hver verkfallsdagur þyngi róðurinn,“ segir Páll.

Þá greinir forstjórinn frá því, að hann hafi í vikunni átt fundi með yfirlæknum spítalans.

„Skilaboð þeirra eru ótvíræð – mikilvægi þess að deiluaðilar nái saman fyrir árslok er algert. Framundan er að öðrum kosti afar alvarleg staða strax á öðrum virkum degi nýs árs þegar áætlað er að víðtækar verkfallsaðgerðir hefjist.  Áríðandi er að lausn deilunnar felist í samningum enda eru aðrar leiðir ávísun á enn frekari vandræði í íslenskri heilbrigðisþjónustu til langrar framtíðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert