12 hestar undir ísnum í Bessastaðatjörn

Kríur á flugi við Álftanes.
Kríur á flugi við Álftanes. mbl.is/Ómar

Tólf hestar fundust drukknaðir í Bessastaðatjörn í morgun. Hestarnir voru á svokallaðari haustbeit en sjö hestanna voru í eigu Íshesta en fimm félaga í Hestamannafélaginu Sóti.

„Þau hafa greinilega ráfað þarna út á ísinn og hann gefið sig undan þeim. Þetta er bara hræðilegt slys,“ segir Einar Þór Jóhannson, umsjónamaður hesthúsa Íshesta. Litið var eftir hrossunum um síðustu helgi og var þá allt með felldu. Einar telur líklegt að slysið hafi átt sér stað í óveðrinu á þriðjudaginn.

„Það var smalað í gær og þá kom í ljós að það vantaði í hópinn. Það var leitað að þeim en þá fannst ekki neitt.  Svo strax í birtingu í morgun flaug þyrla Landhelgisgæslunnar yfir og við sáum þetta á svipuðum tíma þar sem við vorum á röltinu,“ segir Einar. „Það er frosið yfir en það sést aðeins í þá.“

Einar telur tilfinningalegt tjón eigenda og þeirra sem umgengust dýrin vera mun meira en fjárhagslegt tjón. „Maður hefur kannski misst einn og einn hest, en ekki svona. Þetta er náttúrulega algjört einsdæmi.“

Ekki er hlaupið að því að ná hestunum upp úr tjörninni og segir Einar að verið sé að leggja á ráðin um hvernig fara eigi að því.

„Það er verið að vinna í því hvernig eigi að gera það og hver geti hjálpað okkur við það, hjálparsveitin eða slökkviliðið. Það er náttúrulega dálítið mál að komast að þeim ofan í klakanum svo við þurfum að fá fagmenn í það mál.“

Uppfært 15:55

Að gefnu tilefni vill Landhelgisgæslan benda á að þyrla hennar tók ekki þátt í skipulagðri leit að hrossum á Álftanesi í morgun. Hið rétta er að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vissi af leitinni og þegar þyrlan var á leið í reglubundið eftirlits- og gæsluflug var ákveðið að fljúga yfir svæðið. Áhöfn þyrlunnar kom fljótt auga á hrossinn í Bessastaðatjörn og tilkynnti það til stjórnstöðvar sem gerði lögreglu viðvart. Var síðan áfram haldið í fyrirhugað flug.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert