Þúsundþjalasmiðurinn Sölvi Fannar Viðarsson er nýlega heim úr ferðalagi þar sem hann keppti meðal annars á heimsmeistaramótinu í keflisglímu (síberískri MAS glímu) fyrstur Íslendinga. Sölvi fékk aðeins um tuttugu mínútur til að undirbúa sig undir mótið, en segir árangurinn hafa verið betri en hann þorði að vona.
Mótið fór fram í Yakútsk, höfuðborg Yakútíu í Síberíu í Rússlandi dagana 29. og 30. nóvember sl. Auk Sölva Fannars keppti íslenska kraftakonan Þóra Þorsteinsdóttir á mótinu. Með þeim í för voru Magnús Ver Magnússon, hin yakútíska María Shishigina-Pálsson og Eva Björk Ægisdóttir, ljósmyndari.
Sölvi segist hafa fengið það hlutverk fyrir nokkru að velja sterka kandídata á mótið. „Ég hafði samband við þá sem ég hélt að gætu staðið sig vel í þessu en verð að viðurkenna að það var svolítið erfitt að meta þessa íþrótt þar sem ég hafði aldrei séð hana áður og er í raun ein af þeim íþróttum sem erfitt er að gera góð skil nema þá helst að prófa hana sjálfur,“ segir hann. Úr varð að Sölvi tók verkið að sér sjálfur.
„Það gladdi mig hins vegar verulega þegar ég komst að því að þetta er ekki bara íþrótt fyrir karla, þvert á móti, heldur voru flottar íþróttakonur, í sjö þyngdarflokkum eins og hjá körlunum að hel-taka á keflinu því við eigum margar sterkar íslenskar íþróttakonur. Það sem kom mér mest á óvart var að margir af sigurvegurunum, bæði í karla- og kvennaflokkum voru alls ekki þyngstu keppendurnir í sínum þyngdarflokki, sem endurspeglar hversu tæknileg þessi íþrótt er.“
Sölvi segist hafa tekið ákvörðunina um að fara út hálfum mánuði fyrir mótið. Þar sem engin aðstaða er til þess að æfa íþróttina hér á landi segist hann hafa stundað ýmiss konar þjálfun af krafti til að undirbúa líkamann eftir fremsta megni. „Þegar hið langa ferðalag til Yakútíu var að baki fékk ég um það bil tuttugu mínútna leiðsögn þjálfara í hvernig best er að bera sig að í þessari stórskemmtilegu grein. Það er auðvitað allt of lítill tími en það þýðir ekkert helvítis væl, maður gerir bara eins vel og maður getur.“
Hann segir að betur hafi gengið á mótinu en hann þorði að vona, en segir þó mistök sem gerð voru við skipulagningu mótsins hafa gert það að verkum að hann var ekki upp á sitt besta. „Vegna mistakanna hafði ég ekki hugmynd um að það væri komið að mér þegar ég var að hita upp og undirbúa mig. Ég hljóp því móður og másandi, tætandi utan af mér fötin á leiðinni í hringinn því mér var sagt að andstæðingurinn og ekki síður dómarinn, biðu mín. Þótt það hafi verið óþægilegt að vera skraufþurr í munninum og með öndina í hálsinum að keppa í þessu í fyrsta sinn, þá var geggjað skemmtilegt að prófa þetta, hvað þá á heimsmeistaramóti.“
Andstæðingur Sölva á mótinu var Sergey Frolkin. „Hann vann bronsverðlaunin á heimsmeistaramótinu í mínum þyngdarflokki (-105 kg) og fékk að hafa talsvert fyrir því að slá mig út.“
Sölvi segir undirtektirnar hafa verið mjög góðar, eftir þessa fyrstu keppni hans í greininni. „Mótshaldendur fréttu einhvern veginn af því að ég hefði aðeins fengið örstuttan tíma til þess að læra og æfa þessa íþrótt en þau komu og hrósuðu mér í hástert og sögðu mér að ég yrði örugglega í topp þremur sætunum ef ég myndi æfa þessa íþrótt fram að næsta móti. Já, ég mun tvímælalaust keppa aftur í keflisglímu.“
Ýmislegt dreif á daga Sölva í ferðalaginu, en auk þess að keppa á mótinu naut hann þess heiðurs að hitta forseta Yakútíu, Egor Borisov. „Fundurinn með Egor stóð yfir í 70 mínútur, mun lengur en áætlað var, og við ræddum ýmislegt, sumt sem á vonandi eftir að styrkja samskipti Íslands og Yakútíu í framtíðinni.“
Sölvi spilaði á gyðingahörpu, þjóðarhljóðfæri yakútísku þjóðarinnar, fyrir forsetann og segir hann þá reynslu ekki hafa verið minna stressandi en að keppa á heimsmeistaramótinu. „Forsetinn frétti að ég hefði fengið mér gyðingahörpu og bað mig að spila á hana. Rétt eins og með heimsmeistaramótið þá kýldi ég bara á það og kom líklega sjálfum mér mest á óvart með að spila bara ágætlega.“
Þá var Sölvi fenginn í tvenn sjónvarpsviðtöl, blaðaviðtöl auk þess að vera fenginn til þess að vera dómari í ungfrú Yakútíu. „Það var frábært. Og það vill svo stórskemmtilega til að sú sem við krýndum Ungfrú Yakútíu er systir Sergey Frolkin sem ég keppti við á heimsmeistaramótinu, lítill heimur.“
Frétt mbl.is: Umboðsmaðurinn keppir í glímu